„Lundaballið var glæsilegt hjá Elliðaeyingum og svo héldu bæði Vinnslustöðin og Ísfélagið sínar árshátíðir hjá okkur. Ekki má gleyma afmæli Geisla sem var mjög gaman að hýsa. Við eigum allt okkar undir því að húsið sé notað og reynum að þjónusta alla með besta móti. Þá hafa aðrir viðburðir, sem eru þó nokkrir, gengið afar vel,“ segir Daníel Geir Moritz sem rekur Höllina ásamt Svani Gunnsteinssyni og fjölskyldum.
Um síðustu helgi var handverks- og vörumarkaður sem gekk mjög vel. „Við erum mjög ánægð með þátttökuna, yfir 20 aðilar tóku þátt og aðsókn var góð. Við vorum með kaffihús með kakói og tilheyrandi meðfram markaðnum til koma fólki í jólagírinn.“
Þann 25. nóvember verða rokktónleikar þar sem rokksena Eyjanna, Rokkeldið, ætlar að sýna flóruna á tvennum tónleikum. Fyrst á opnum fjölskyldutónleikum og síðan með því að hækka enn meira í græjunum um kvöldið. Það er geggjað að fá svona í húsið.
„Hápunktur aðventunnar hjá okkur verður jólahlaðborðið 8. og 9. desember. Við gerum það í samstarfi við Einsa kalda. Þegar fólk verður að klára sig af kræsingum hefst tónlistarveisla. Á henni verður Ragga Gísla sérstakur gestur en ásamt henni syngja Einar Ágúst, Þórarinn Óla, Sæþór Vídó og hinar frábæru Una og Sara. Það er mitt mat að þetta sé flottasta jólahlaðborð landsins, enda sameinum við matinn hjá Einsa við geggjaða tónleika fyrir verð sem fólk borgar annars staðar fyrir annað hvort. En þetta getum við gert vegna frábærar aðsóknar sem við veðjum á,“ segir Daníel Geir og er ánægður með stöðuna.
„Margir viðburðahaldarar berjast í bökkum en við getum ekki kvartað yfir mætingu, þvert á móti. Fólk er duglegt að koma og er bjart framundan. Árið í ár er orðið miklu stærra en í fyrra og 2024 lítur strax vel út.“
Myndir: Hallarbræður, Daníel Geir og Svanur í góðum gír.
Stórhátíð Krabbavarnar var einn af stórum viðburðum í Höllinni i haust.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst