Arnar Sighvatsson fæddist 6. ágúst 1934 í Ási í Vestmannaeyjum. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 20. september 2024.
Foreldrar Arnars voru Guðmunda Torfadóttir húsmóðir, f. 22. apríl 1905 í Hnífsdal, d. 27. september 1983, og Sighvatur Bjarnason skipstjóri og forstjóri, f. 27. október 1903 á Stokkseyri, d. 15. nóvember 1975.
Arnar var einn af ellefu systkinum. Alsystkini hans sem eru látin eru Margrét, f. 1931, d. 2009, Bjarni, f. 1932, d. 2018, Sighvatur, f. 1942, d. 1955, og Magnús Torfi, f. 1944, d. 2002. Á lífi eru Guðbjartur Richard, f. 1937, Hrefna, f. 1939, og Jón, f. 1946. Sammæðra systkini Arnars voru Kristjana Valgerður Jónsdóttir, f. 1926, d. 2011, Guðríður Kinloch, f. 1927, d. 2011, og Haukur Guðmundsson, f. 1929, d. 1991.
Arnar kvæntist hinn 3. júní 1956 Soffíu Björnsdóttur frá Bólstaðarhlíð, f. 13. ágúst 1933. Soffía er dóttir hjónanna Björns Bjarnasonar útvegsbónda, f. í Ysta-Skála undir Eyjafjöllum 3.3. 1893, d. 25.9. 1947, og Ingibjargar Ólafsdóttur, f. 12.4. 1895 í Dalsseli, d. 22.6. 1976.
Arnar og Soffía eiga tvö börn, þau eru: 1) Sighvatur, f. 10.10. 1954, kvæntur Ingunni Árnadóttur, f. 11.9. 1955. Fyrir á Sighvatur tvo syni: a) Jón, f. 31.3. 1984, sambýliskona er Auður Óskarsdóttir, börn þeirra eru tvö, María Ósk, f. 5.6. 2019, og Valur Þór, f. 18.02.2022. b) Einar Björgvin, f. 26.5. 1997. 2) Ingibjörg, f. 13.2. 1971, gift Ólafi Þór Gylfasyni, f. 16.8. 1970. Börn þeirra eru tvö, Agnes Birna, f. 11.11. 2003, og Arnar Þór, f. 27.3. 2006.
Arnar ólst upp í Ási í Vestmannaeyjum í stórum systkinahópi. Hann lauk vélstjóraprófi 1954, iðnskóla- og sveinsprófi í vélvirkjun 1955, fékk meistararéttindi 1958.
Fjórtán ára gamall fór hann á síldveiðar fyrir Norðurlandi hjá föður sínum. Hann vann í Vélsmiðjunni Magna í fjögur ár, síðan í Áhaldahúsi Vestmannaeyja í rúmt ár. Arnar hóf vörubílaakstur á eigin bíl 1965. Í Vestmannaeyjagosinu 1973 stofnaði hann verktakafyrirtæki ásamt Þórði á Skansinum og ráku þeir það saman til ársins 1980. Síðast var hann vélstjóri í Eyjaberginu, sem er í eigu Vinnslustöðvar Vestmannaeyja.
Arnar og Soffía hófu búskap í Bólstaðarhlíð árið 1954. Þau byggðu sér hús í Grænuhlíð 4 og bjuggu þar uns húsið fór undir hraun í Vestmannaeyjagosinu 1973. Eftir gosið festu þau kaup á Höfðavegi 6 og bjuggu þar í tæp 50 ár. Þau hjónin fluttust í þjónustuíbúð á vegum Vestmannaeyjabæjar í lok árs 2023 og undu þar hag sínum hið besta.
Arnar var jarðsettur 30. september 2024 í kyrrþey frá Landakirkju að viðstöddum ættingjum og vinum þeirra hjóna.
Ég er ekki enn farinn að átta mig á því að faðir minn er farinn og hefur yfirgefið þetta jarðneska líf. Síðastliðin 30 ár höfum við feðgarnir talast við á nánast hverjum degi. Umræðumálin hafa verið margvísleg, Landeyjahöfn var í miklu uppáhaldi, enda hafði hann vissu fyrir því hvað gera þyrfti svo hún gagnaðist enn betur. Hann var í raun ekkert sérstaklega ánægður með þá framkvæmd, því hans staðfasta trú var að bráðum kæmu jarðgöngin milli lands og Eyja. Svo var veðrið í Eyjum gott umræðuefni.
Þegar ég hugsa til baka þá er mér ofarlega í minni hversu umhyggjusamur og góður faðir hann var. Alltaf tilbúinn að hjálpa ef þurfa þótti, var alltaf bakhjarlinn sem aldrei brást. Hann lagði hart að okkur systkinunum að mennta okkur, því hann sá í kringum sig hversu mikilvægt væri að öðlast menntun, þar hafði hann lög að mæla.
Pabbi var ljúfur og skipti mjög sjaldan skapi, þó man ég eftir einu atviki, það var í hádeginu, matartími, mamma að sjóða fisk og kartöflur eins og þá var algengt, en þegar hún ætlaði að reiða fram soðna ýsuna, þá hafði hún gleymt að setja hana í pottinn. Þá snöggreiddist pabbi enda sársvangur, mamma fór að skellihlæja að því hvernig hann brást við, þá náði hann strax áttum og fór einnig að hlæja. Þannig leystu þau marga hluti.
Hann var alla tíð forkur til vinnu, vann langan vinnudag, ósérhlífinn, útsjónarsamur og skipulagður, einnig traustur og heiðarlegur í öllum viðskiptum. Pabbi hafði litla þörf fyrir að láta bera á sér, en lét verkin tala.
Þegar mamma og pabbi byrjuðu að búa, þá byggðu þau sér nokkuð stórt einbýlishús, eins og algengt var í Eyjum á þessum tíma, mikill uppgangur og næg vinna fyrir alla. Hann var mjög hreykinn af því að þau áttu fyrir húsinu uppsteyptu. Þegar við feðgar vorum að ræða um kostnaðinn við bygginguna þá gat hann talið upp hvað allt kostaði og hversu langan tíma það tók, hvort sem það var uppslátturinn, sementið, innréttingarnar, málunin, glerið o.s.frv. enda var hann mjög minnugur, en þrætti samt alltaf fyrir það.
Þegar foreldrar mínir byggðu sér sumarbústað á Laugarvatni 1970, þá fékk hann brennandi áhuga á trjárækt, einnig fékk hann útrás fyrir framtakssemi sína með því að gera allt sjálfur; trésmíði, rafmagn, pípulagnir, allt þetta lék í höndum hans.
Hann var í fótboltanum á yngri árum og að sjálfsögðu í íþróttafélaginu Þór, sem sagt Þórari. Síðar hóf hann að synda sér til heilsubótar og gerði það í yfir 50 ár.
Ekki er hægt sleppa að nefna hjónaband foreldra minna. Það var með eindæmum farsælt og gott alla tíð. Þau fundu það bæði um leið og þau kynntust að þeim var hreinlega ætlað að vera saman, enda leið þeim ákaflega vel saman, gátu talað um allt milli himins og jarðar, eða setið saman í þögninni. Væntumþykjan, ástin og traustið sem mamma og pabbi báru hvort til annars var öllum ljóst, alveg frá fyrstu kynnum og fram að þeim tíma að pabbi kvaddi þennan heim.
Það er mikil lífs lukka að eiga föður sem var góð fyrirmynd, það var mitt veganesti í lífið.
Hvíldu í friði kæri faðir minn.
Sighvatur.
Fallinn er frá Arnar Sighvatsson, eftir nokkuð löng og ströng veikindi, enda aldurinn orðinn hár. Viðbrigðin vegna veikinda voru mikil, frá því að stunda sund og göngur á hverjum degi fyrir ekki svo mörgum árum, til þess að komast rétt um heima fyrir.
Arnar var afar dagsfarsprúður maður og hæglátur, alinn upp í stórum systkinahópi, þar sem eflaust hefur reynt á samskiptin, en alltaf talaði hann af væntumþykju um systkini sín.
Arnar fór ungur að vinna, eins og títt var í þá daga, fór til sjós með föður sínum Sighvati Bjarnasyni, en hóf síðar nám í vélvirkjun í Vélsmiðjunni Magna og vann þar um tíma að námi loknu. Seinna festi hann kaup á vörubíl, gerðist einn af eigendum Vörubílastöðvar Vestmannaeyja og vann við akstur. Hann var einn þeirra sem unnu að hinu mikla hreinsunarstarfi bæjarins eftir Vestmannaeyjagosið. En fjölskyldan flutti aftur heim til Eyja haustið 1974.
Þau fluttu eins og aðrir upp á land þegar gosið hófst, hús þeirra í Grænuhlíð 4 fór undir, þegar heim kom keyptu þau sér húsið Höfðaveg 6.
Segja má að þegar þar var komið hafi þau hjón Arnar og Soffa endurnýjað kynni sín við sinn gamla skólabróður og jafnaldra, Helga eiginmann minn. Helgi var fenginn til að smíða, byggja og breyta fyrir þau í húseigninni sem keypt var. Síðan þetta var eru liðin um 50 ár og góður vinskapur og samgangur ætíð ríkt á milli okkar. En nú erum við að týna tölunni, fyrst fór Helgi og nú hefur Arnar kvatt líka.
Ekki er hægt að minnast Arnars nema hafa Soffu í hinu orðinu, svo samrýnd voru þau hjón. Þeim varð tveggja barna auðið og var þeim það mikið kappsmál að framganga þeirra yrði sem best. Þau eru bæði gift með fjölskyldur sem voru þeim hjónum miklir gleðigjafar. Oft var litið við á Höfðaveginum til að fá sér hressingu, ekki stóð á Soffu að draga fram kaffi og meðlæti. Skemmtilegast var þó af öllu að heimsækja þau í sumarbústaðinn á Laugarvatni, þar var þeirra sælureitur og hvergi undu þau sér betur en þar. Þar höfðu þau komið upp miklum trjágróðri og jafnvel framandi jurtum, þau voru með á tæru vöxt og viðgang hverrar plöntu og við gestir þeirra urðum að fá að vita hve mikil framför hafði orðið á tilteknum tegundum milli ára.
En nú er komið að leiðarlokum og ekki verða sumarbústaðaferðirnar fleiri eða samverustundirnar, en ég þakka af alhug samferðina sem við höfum átt, hún er dýrmæt. Arnar hafðu þökk fyrir allt. Ég sendi Soffu og börnunum Sighvati og Ingibjörgu og þeirra fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi ykkur öll.
Unnur Tómasdóttir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst