Á vef Vestmannaeyjabæjar rifjar Ingimar Georgsson upp þá örlagaríku nótt þegar gos hófst á Heimaey.
Ég var vakinn rétt fyri kl 2 aðfaranótt 23.janúar 1973, mamma vakti mig og sagði “klæddu þig og komdu niður ekki fara í skólafötin”.
Ég hlýddi og dreif mig niður og mamma benti mér á að kíkja út um austurgluggann í stofunni, það væri byrjað að gjósa, austurhimininn var allur rauður og ég hélt að það væri kviknað í nokkrum húsum. Stuttu seinna komu Sigmar bróðir og Edda upp, en þau bjuggu í kjallaraíbúðinni á Vegbergi, en það er nafnið á æskuheimili mínu. Simmi sagði mér að koma út á tröppur og sjá gosið þetta var rosaleg að sjá fyrir 12 ára gutta. Mamma hafði miklar áhyggjur af Guðfinnu systu og Kristni syni hennar en hann var þá rúmlega tveggja ára. Þau bjuggu austast í bænum nánar tiltekið á Suðurvegi.
Skæringur bróðir mætti fljótlega á Vegbergið með sína fjölskyldu, Sigrúnu konu sína og börnin tvö þau Georg og Láru. Pabbi bað Skæring að fara ásamt Sigmari og ná í Guðfinnu og Kristinn, en foreldrar mínir höfðu miklar áhyggjur af þeim. Ég rellaði í bræðrum mínum um að fá að koma með og þeir samþykktu það. Farið var á bílnum hjá Skæringi og þegar við komum upp á Búastaðabraut var eins og við væru komnir nánast upp að eldinum. Við komum heim til Guðfinnu og fórum inn, Guðfinna stóð í forstofunni með Kidda litla í fanginu mjög hrædd, enda var rosalega heitt í húsinu og gosið nánast í bakgarðinum. Ég tók Kidda í fangið að skipan Sigmars og hann leiddi Guðfinnu út í bíl og ég í humátt á eftir, rétti Guðfinnu Kidda og Sigmar settist við hlið hennar, en Guðfinna var orðin mjög hrædd og benti okkur á að Kiddi væri enn í náttfötunum og vantaði einhvað föt og bað okkur Skæring að fara inn í svefnherbergið og ná í föt á hann. Við Skæringur fórum aftur inn í húsið og inn í svefnherbergið sem snéri í austur, það var svakalega heitt þar inni og rauður bjarmi frá gosinu og miklar drunur. Skæringur reif einhvað af fötum og setti í tösku og við drifum okkur út.
Þegar við komum á Vegbergið aftur þá var Fríða mágkona mætt með sín börn, Jón Inga, Sigurbáru og Öddu Jóhönnu en Sigurður bróðir var á Akureyri að ná í nýjan bát, Heimaey VE. Mamma var búin að hella uppá kaffi og dekka borð. Ég fór aftur út á tröppur og horfði á gosið það var komið smá öskufall. Fín aska sveif um loftið og ég starði til austurs hálf dáleiddur, þegar löggubíll kom keyrandi niður Skólaveginn og frá bílnum komu skilaboð, allir eiga að fara niður á bryggju, ég hljóp inn og sagði fólkinu mínu frá skilaboðunum, sem reyndar öll heyrðu. Ég horfði á útvarpið það heyrðist í því “um miðja nótt” tilkynningin sem ég heyrði frá löggubílnum. Pabbi bað mig um að róa mig við færum fljótleg, mamma þín er að hringja í Kristínu systur þína og kanna með þau.
Það var síðan rúmlega 4 um nóttina að við fór öll saman niður á bryggju og um borð í Danska Pétur VE. Við stóðum flest út á dekki þegar siglt var út um hafnarmynnið og það var töluvert öskufall miklu grófara en askan upp á Skólavegi. Þegar við komum út fyrir Klettsnefið fór að gusast á okkur sjór og bað áhöfnin okkur um að drífa okkur niður í lest. Þar sátum við fjölskylda á veiðafæra hrúgu í lestarstíunum, alls vorum við 16 fjölskyldumeðlimir og einn laumufarþegi. Farþegar með Danska Pétri Ve 423 þessa nótt voru 231 og tveir laumufarþegar. Við komum að Þorlákshöfn milli kl 8 og 9 um morgunin og við Jón Ingi frændi stóðum út á dekki og horfðum á bátana sigla hver af öðrum inn í höfnina í Þorlákshöfn en það var eins og bátarnir væru í biðröð um að komast inn í höfnini.
Danski Pétur lagðist að bryggju milli 9 og 10 um morgunin. Við kvöddumst á bryggjunni, ég, afi, pabbi og mamma fóru til bróður pabba sem bjó í Þorlákshöfn, hinir í fjölskyldunni fóru til Reykjavíkur.
Ingimar Georgsson
Mynd: Af heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst