„Ég er að ljúka þremur góðum árum hérna núna. Ég kannast þó aðeins við að útskrifast, ég lauk námi á félagsvísindabraut haustið 2020. Þá var hins vegar engin formleg útskrift, vegna COVID,“ sagði Sigurður Ragnar Steinarsson útskriftarnemi sem ávarpaði gesti á skólaslitunum fyrir hönd nemenda.
„Þessi ár hafa kennt okkur margt. Ábyrgð, þrautseigju og ekki síst að vinna saman. Við höfum lært að treysta eigin ákvörðunum, takast á við nýjar áskoranir og halda ró – jafnvel þegar hlutirnir ganga ekki alveg eins og við viljum. Þetta er reynsla sem mun fylgja okkur áfram, bæði út í atvinnulífið og í þau verkefni sem bíða okkar næstu ár.
Að minni hálfu vil ég sérstaklega þakka Matta, Þresti og Gísla fyrir kennsluna, fjölbreytileikann, skilninginn, þolinmæðina og alla þá leiðsögn sem þeir hafa veitt okkur í gegnum námið. Ég vil líka þakka öðrum kennurum skólans fyrir stuðninginn og fagmennskuna sem gerði okkur kleift að ná þessu markmiði.

Námið hér í FÍV stendur ekki í stað. Það hefur þróast með hverju árinu, orðið betra og fjölbreyttara. Skólinn fylgir tímans anda, horfir fram á við og undirbýr nemendur fyrir raunveruleikann sem bíður okkar. Það er mikils virði að vita að menntunin sem við höfum fengið er ekki aðeins sterk í dag – heldur líka framtíðarmiðuð.
Þegar ég lít til baka yfir skólagönguna mína hér standa helst upp verklegu æfingarnar, skoðunarferðirnar, félagslífið, hittingarnir sem haldnir voru yfir önnina og ekki síst vinskapurinn sem hefur myndast á þessum tíma.
Ég gæti sagt margar sögur frá vélstjórnarhópnum – en þær eru kannski ekki allar við hæfi hér, svo ég læt það vera að þessu sinni.
Ég óska öllum útskriftarnemendum velfarnaðar í komandi framtíð. Nú tökum við næsta skref, tilbúin að nýta þekkinguna sem við höfum byggt upp og halda áfram að vaxa sem einstaklingar. Vonandi skemmtið þið ykkur vel í kvöld og takk fyrir mig,“ sagði Sigurður Ragnar að endingu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst