„Hér er vélgæslukerfi og hægt að sjá og stýra flestum kerfum skipsins. Við getum kveikt ljós á dekkinu með þessum skjá ef því er að skipta. Sett aðalvél í gang og fylgst með öllu, RSW-kælikerfið er hérna líka en þegar við erum að dæla inn fiski erum við uppi í dekkhúsi þar sem við erum með samskonar skjái,“ segir Fannar Veigar, yfirvélstjóri á Heimaey VE. Við erum staddir í stjórnklefa vélarrúmsins þaðan sem öllu er stjórnað. Fannar er 43 ára og segir hann margt hafa breyst frá því hann byrjaði til sjós.
„Ég byrjaði 16 ára og það hefur orðið risastökk síðan um aldamót. Skipin orðin stærri og meiri og sem dæmi, þegar fyrri Heimaey kom 2012 þótti hún mikið skip en þykir ekki í dag. Hérna erum við með í höndunum miklu nútímalegra skip.“ Fannar segir muninn ekki endilega liggja í vélarafli. Gamla Heimaey var líka öflugt skip. En munurinn er að þetta er nýrra með nútímalegri búnaði, t.d það sem kallast Power Management System , sem stjórnar öllu rafmagnskerfi og tryggir að það sé öruggt og skilvirkt.“
Aðalvélin er Wärtsila 5.220 kW og þrjár 550 kw ljósavélar og ein 150 kW. „Taflan sér um þetta allt. Við bryggju er kerfið á sjálfstýringu og ef vantar að koma inn vél gerist það sjálfkrafa. Ef alvarleg bilun verður í aðalvél sér svokallaður PTI búnaður um að við getum siglt í land á ljósavélunum. Þetta var ekki í gömlu Heimaey. Allur búnaður er nútímalegri og það er gaman að takast á við það. Það er mikil vinna framundan að læra. Koma skikki á bókhald og viðhald á skipinu sem var kannski ábótavant hjá Skotunum. Þeirra rekstrarkerfi er öðruvísi en þegar það verður komið í lag verður þetta fínt.“
Í deild með stóru strákunum
Fannar sýnir blaðamanni vélarúmið þar sem hvergi er olíublett að sjá. „Þetta er aðalvél, gír og ásrafall, allt er þetta uppfærsla frá fyrri Heimaey. Öflugri búnaður í skipi og á dekki. Dælt er úr trolli að aftan ekki síðu. Skipið ber meira, með öflugri kælingu og allt stærra og öflugra. Það er nauðsynlegt að endurnýja flotann. Vélar verða hagkvæmari í rekstri, kælikerfin öflugri til að mæta meiri kröfum um gæði fisks. Þetta færðu með nýrri skipum og nú erum við komnir í deild með stóru strákunum,“ sagði Fannar að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst