Mjög lítið þarf til svo að rafmagnið detti út í Vestmannaeyjum, þar sem nú er stjörnuvitlaust veður að sögn Ívars Atlasonar hjá HS Veitum.
Í gær var haft samband við öll fyrirtæki í Eyjum og þau beðin um að keyra niður alla starfsemi eins og mögulegt er í dag. Aðeins þá sé möguleiki að halda rafmagninu inni án þess að treysta þurfi á varaaflið.
Ívar segir að rafmagnið hafi haldist inni í nótt, en það sé nú algjörlega á mörkunum. Ef keyra þarf á varaafli er það mjög takmarkað, þar sem aðeins eru sjö ljósavélar til taks og er það í raun sama staða og síðan í eldgosinu 1973, að sögn Ívars. Miðað við raforkuþörf í dag þurfi fleiri vélar til þess að viðhalda varaafli ef til þess kemur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst