HS Veitur hf. hafa tilkynnt um 18% hækkun á gjaldskrá til húshitunar í Vestmannaeyjum og tók hækkunin gildi 1. janúar sl. Þetta er önnur hækkunin á stuttum tíma því í september sl. hækkaði gjaldskráin um 15%. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í gær.
Bæjarstjóri hefur sent fyrirspurn á orkumálastjóra og orkumálaráðherra og óskað eftir staðfestingu á því hvort að HS-veitum sé heimilt á fjögurra mánaða tímabili að hækka gjaldskrá hitaveitu (fjarvarmaveitu) til Eyjamanna um 25% auk þess að lækka hitastigið á vatninu sem þýðir að kaupa þarf meira magna að vatni til að halda sama hita. Hækkunin er því rúmlega 30% frá 1. september. Svar hefur borist frá Orkustofnun sem heimiluðu þessar hækkanir HS-Veitna. Enn er beðið svara frá orkumálaráðuneytinu.
Skora á Alþingi að endurskoða lagaumhverfi
Í niðurstöðu ráðsins lýsir bæjarráð yfir óánægju með hækkun á gjaldskrá hitaveitunnar sem er veruleg ofan á aðra mikla hækkun sem kom til fyrir fjórum mánuðum. Þá er þessi mikla hækkun sérstök m.t.t. áskorunar helstu samningsaðila kjarasamninga á fyrirtæki og opinbera aðila að halda aftur af verð- og gjaldskrárhækkunum.
Stjórn Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum hefur unnið að því undanfarið í samtalið við hagaðila um að lagaumhverfið sem gildir um fjarvarmaveitur verði endurskoðað til að jafna kostnað íbúa landsins vegna húshitunar. Bæjarráð tekur undir það og skorar á Alþingi að endurskoða lagaumhverfi.
Vonbrigði með varmadælustöð
Þá lýsir bæjarráð yfir vonbrigðum með að varmadælustöðin hafi ekki skilað tilætluðum árangri sem hefði áhrif til lækkunar á húshitunarkostnaði eins og lagt var upp með. Bæjarráð lýsir miklum áhyggjum á því að mikill leki er í lokuðu dreifikerfi HS Veitna í Vestmannaeyjum þar sem milli 150-200 tonn leka út á hverjum degi. Bæjarráð skorar á HS Veitur að koma þessu í lag sem fyrst enda ekki sanngjarnt að kostnaður vegna þessa leka leggist á íbúa í Vestmannaeyjum.
https://eyjar.net/skipulogd-lekaleit-hafin/
https://eyjar.net/verdskra-hitaveitu-haekkar-aftur/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst