„Það var hörkumæting á blótið í ár. Við vorum um sextíu saman komin, mættum klukkan sex og vorum að fram yfir klukkan níu. Mjög vel heppnað og afar þakklátir gestir sem kvöddust að teitinu loknu,“ segir Þór Vilhjálmsson um þorrablót Vinnslustöðvarinnar til heiðurs fyrrverandi starfsmönnum sínum og mökum þeirra að kvöldi fimmtudagsins 8. febrúar.
Borðin svignuðu
Á vef Vinnslustöðvarinnar segir að Þór sinni mikilvægu verkefni við undirbúninginn. Er þá í hlutverki smaladrengs nema hvað hann rakar saman fólki en ekki fénaði. Þór hringir í væntanlega gesti og býður til blóts á þann persónulega hátt sem honum er lagið.
Sigurgeir Brynjar, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, kom beint á samkomuna frá Hamborg, ávarpaði gesti og rakti það sem efst væri á baugi í starfsemi fyrirtækisins.
Halli Steini – Haraldur Þorsteinn Gunnarsson – sýndi Eyjamyndir sem gerðu mikla lukku. Og að sjálfsögðu svignuðu svo borð undan þorramat og drykkjarföngum af öllu tagi og við allra hæfi.
Mælist afar vel fyrir
„Vinnslustöðin hefur í þó nokkur ár boðið fyrrverandi starfsmönnum og mökum á þorrablót, eina fyrirtækið í Vestmannaeyjum sem það gerir. Við vorum áður í sal Akóges en í glæsilegum matsal Vinnslustöðvarinnar sjálfrar eftir að hann var tekinn í gagnið.
Þetta mælist afar vel fyrir og ég nefni þá um leið að Vinnslustöðin hefur árum saman gefið fyrrverandi starfsmönnum og fjölskyldum þeirra síld og veglega konfektkassa fyrir jólin – heimsendar hátíðarkveðjur á aðventunni.
Ráðamenn fyrirtækisins eiga miklar þakkir skildar fyrir ræktarsemi við fyrrverandi starfsmenn sína.“ segir Þór í umfjölluninni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst