Atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem undirritaður var þann 6. febrúar síðastliðinn lauk kl. 15:00 í dag. Á kjörskrá voru 1104 og greiddu 592 atkvæði um samninginn eða 53,62%. Niðurstaðan er að af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 61,99%, 217 sögðu nei eða 36,66% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1,35%. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei. Samningurinn var því samþykktur.
„Núna eru sjómenn innan SSÍ komnir með alvöru kjarasamning eftir erfiða fæðingu. Sá samningur sem felldur var fyrir ári síðan er grunnurinn að þessum nýja samningi. Við bættum við og lagfærðum það sem sjómenn gagnrýndu hvað mest í þeim samningi. Ég er stoltur af mínum félagsmönnum innan Sjómannasambandsins að samþykkja samninginn,“ segir Valmundur Valmundarson, formaður Sjómannasambands Íslands í samtali við mbl.is.
„Loksins er gert upp úr 100% aflaverðmæti. Loksins geta sjómenn sagt að þeirra hlutur í olíukostnaði sé í burtu. Nú geta sjómenn sótt hækkun beint á skiptaprósentu ef þurfa þykir með grein 1.39.1. Loksins koma hækkanir á kauptryggingu og kaupliðum eins og gerist á almenna markaðnum. Loksins fá sjómenn desember uppbót árið 2028,“ segir ennfremur á mbl.is.
Mynd: Valmundur í ræðustól á Sjómannadaginn í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst