Það er spennandi úrval gestakokka sem mætir á Sjávarréttahátíðina MATEY sem haldin verður í annað skiptið að þessu sinni dagana 21.-23. september.
Hátíðin var fyrst haldin í fyrra og stóð svo sannarlega fyrir sínu þar sem veitingastaðir, fiskframleiðendur og þjónustuaðilar í sjávarsamfélaginu Vestmannaeyjum tóku höndum saman og vöktu athygli á fjölbreytta fiskinum sem framleiddur er í Eyjum og boðið var upp á margvíslega töfrandi rétti úr frábæru hráefni úr Eyjum.
Í þetta skipti verður ekki eingöngu boðið upp á einstaklega góðan mat heldur verður einnig hægt að kíkja á áhugaverða viðburði á hátíðinni.
Fyrirtæki í sjávarútveginum og tengdum greinum gefa gestum tækifæri að fá innsýn í starfsemina og kynnast hvernig bláa hagkerfið tengist saman þannig að til verður dýrindis matur á diskum gesta hátíðarinnar á hinum fjölskrúðugu fjölskyldureknu veitingastöðum í Eyjum.
Stjörnukokkar elda ofan í gesti
Veitingastaðirnir GOTT, Slippurinn, Einsi kaldi og NÆS munu bjóða upp á margrétta sérseðla ásamt nokkrum af bestu matreiðslumönnum í heimi sem taka þátt í hátíðinni sem gestakokkar. Á Tanganum, Kránni og Pítsagerðinni verða í boði sérréttir og Brothers Brewery bjóða upp á nýjan bjór í tilefni hátíðarinnar.
Adam Quershi verður gestakokkur hjá GOTT en hann kemur frá Michelin vetingastaðnum KOL í London sem situr í 23. sæti yfir bestu veitingastaði heims.
Á Slippnum verður hinn írski Cúán Greene gestakokkur en hann hefur unnið á Michelin stjörnustöðum eins og Noma og Geranium í Kaupmannahöfn.
Ítalski matreiðslumeistarinn Triscornia Francesco frá Toscana verður á Einsa Kalda og Adrien Bouquet frá Frakklandi á veitingastaðnum NÆS. Adrien er með mikla reynslu af skemmtilegustu stöðum Parísarborgar og liggur ástríða hans í japanskri matargerð sem hann lærði bæði í París og í Japan.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst