Bæjarstjórn Vestmannaeyja er æðsta vald Vestmannaeyjabæjar. Þar sitja níu kjörnir fulltrúar. Í gær var fyrsti fundur bæjarstjórnar á árinu. Fyrsti fundur síðan síðasta hækkun HS Veitna gekk yfir bæjarbúa.
HS Veitur hafa í tvígang – með skömmu millibili – hækkað gjaldskrá sína á íbúa í Vestmannaeyjum. Auk þess lækkaði hitastigið á vatninu. Fyrirtækið nýtur þeirra forréttinda að sitja eitt að því að selja Eyjamönnum heitt vatn.
Eignarhlutir í HS Veitum hf. skiptast á eftirfarandi hátt: Reykjanesbær 50.1%, HSV eignarhaldsfélag slhf. 49,8% og Suðurnesjabær 0,10%. Áður átti Vestmannaeyjabær tæplega þriðjungshlut í fyrirtækinu sem seldur var fyrir á fjórða milljarð árið 2007.
Varaði við því sem nú hefur gerst
Á þeim tíma þótti það umdeilt hvort selja ætti slíka innviði hjá bæjarfélaginu. Sigurður Vilhelmsson skrifaði merkilega grein sem ég rakst á í googli mínu um málið. Greinin er skrifuð á Eyjar.net í september 2007. Þar sagði m.a.:
„Reynslan af einkavæðingu orkufyrirtækjanna í nágrannalöndum okkar hefur líka sýnt að alls staðar hækkar verðið og þjónustan versnar. Þar verða litlu svæðin einna verst úti. Þegar kemur að því að endurnýja vatnslögnina milli lands og Eyja, verður einhver sem hefur áhuga á því annar en við Eyjamenn? Fari hún í sundur, liggur eitthvað á að gera við? Verður það efst á forgangslistanum hjá Goldman Sachs, sem verða jú að fá viðunandi ávöxtun af fjárfestingunni sinni?
Getur hugsast að Vestmannaeyjabær muni standa frammi fyrir því eftir nokkur ár að þurfa að taka aftur yfir almenna veitustarfsemi í Eyjum, því hún skilar einfaldlega ekki nægum hagnaði á „frjálsa markaðnum“? Gæti verið að eftir nokkur ár þurfum við að stofna Bæjarveitur Vestmannaeyja til að sinna þeirri starfsemi sem skilar ekki nægum arði til New York?
Þá gæti verið gott að eiga 3,5 milljarða inni á bók.“
Þetta eru sennilega margir bæjarbúar að hugsa í dag, þegar við erum undir hælnum á slíku fyrirtæki. Reyndar ber að taka fram að staða bæjarsjóðs var mjög bágborinn á þessum tíma og nýttust fjármunir af sölunni vel til þess m.a. að greiða upp óhagkvæm lán og efla uppbyggingu innviða.
Þurfa lögfræðiteymi og fulltrúa ráðuneytis með á fundi
Fram kom í máli Eyþórs Harðarsonar á fundi bæjarstjórnar í gær – í umræðu um tjón á vatnslögn – að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar þyrftu að taka með sér lögfræðiteymi og fulltrúa ráðuneytis á fundi með forsvarsmönnum HS-Veitna.
HS Veitur hafa ekki gefið okkur raunverulega skýringu á hækkunum, aðeins vísað til raforkuskorts sem er svo ekki rökstutt frekar. Olíuverð hefur ekki hækkað sem neinu nemur síðustu mánuði svo erfitt er að finna rökstuðning þar.
Bæjarráð hafði áður fjallað aðeins um málið, en þar situr aðeins þriðjungur bæjarfulltrúa.
Merkilegast þótti mér að kjörnir fulltrúar sem funduðu í gær, þótti ekki ástæða til að taka – þessar gengdarlausu og illa rökstuddu hækkanir upp – á æðsta stigi bæjarins. Eftir því biðu margir bæjarbúar!
Tryggvi Már Sæmundsson
Höfundur er ritstjóri Eyjar.net.
https://eyjar.net/2007-09-24-eru-baejarveitur-vestmannaeyja-framtidin/
https://eyjar.net/fundur-baejarstjornar-i-beinni-8/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst