Hátíðin fór vel fram frá okkar bæjardyrum séð og allflestir voru til fyrirmyndar
Margir koma að skipulagi, undirbúningi og framkvæmd Þjóðhátíðar. Má nefna þjóðhátíðarnefnd, Heilbrigðisstofnun, sýslumannsembættið, Björgunarfélagið, slökkvilið, Herjólf, Landakirkju og Vestmannaeyjabæ þar sem er unnin fjölbreytt vinna í tengslum við hátíðina, við götulokanir, bakvaktir í barnavernd og allt þar á milli.
Á hátíðinni er einnig starfrækt þaulreynt sálgæslu- og áfallateymi sem Margrét Rós Ingólfsdóttir félagsfræðingur hefur umsjón með. Margrét hefur tæplega 20 ára reynslu af störfum í velferðarþjónustu. „Já, sálgæsla og áfallateymið var í mínum höndum Að teyminu koma auk mín félagsráðgjafar, einstaklingar með sálfræði- og uppeldismenntun, ráðgjafar í félagsþjónustu og fleiri. Allir með góða reynslu í að takast á við snúin og viðkvæm mál sem upp geta komið. Auk þess sem við hófum nýtt forvarnarverkefni, „Er allt í lagi?“ segir Margrét Rós. „Það verkefni fór vel af stað og verður vonandi framhald á. Annars fór hátíðin vel fram frá okkar bæjardyrum séð og allflestir voru til fyrirmyndar.“
Fagaðilar í hverju horni
Forvarnarverkefni eru ekki ný af nálinni á Þjóðhátíð og má þar nefna Bleika fílinn, Sofandi samþykkir ekkert og Verum vakandi. Eins og Margrét nefnir tók þjóðhátíðarnefnd nú upp öflugt átak undir yfirskriftinni „Er allt í lagi?“. Merki átaksins er gult og var fólk hvatt til að bera fyrirliðabönd til að minna fólk á að auðvelt er að spyrja: Er allt í lagi? og ef svarið er nei er hægt að leita til gæslu eða hafa samband við 112. Fyrirtæki og stofnanir í Eyjum studdu vel við verkefnið og mátti sjá starfsfólk veitingastaða, sjoppa, Herjólfs ofl. skarta fyrirliðabandinu. Þá létu einstaklingar ekki sitt eftir liggja né skemmtikraftar.
„Við vinnum eftir verkferlum sem settir hafa verið upp ef upp koma ofbeldisbrot í samvinnu við lögreglu og heilbrigðisstofnunina. Erum við vel búin til að takast á við þau mál sem upp geta komið. Ég þreytist ekki á að segja að þjóðhátíðarnefnd og ÍBV geta verið gríðarlega stolt af því viðbragði sem er til staðar yfir hátíðina. Við eigum ekki að vera feimin að tala um það eða tala það niður, heldur vera stolt yfir að það séu fagaðilar í hverju horni og þjónusta og viðbragð með allra besta móti,“ sagði Margrét Rós.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst