Síðasta nótt Þjóðhátíðar var róleg hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, að sögn Karls Gauta Hjaltasonar, lögreglustjóra.
„Enginn er í klefa nú í morgunsárið. Þá komu upp fimm minniháttar fíkniefnamál. Engar stórar líkamsárásir kærðar enn sem komið er, aðeins minniháttar pústrar eins og gengur og gerist þegar á annað tug þúsunda koma saman að skemmta sér.“
Nú heldur fólk til síns heima og vill Karl Gauti koma því á framfæri til þjóðhátíðargesta að passa vel upp á að bílstjórar séu allsgáðir þegar lagt sé í hann. „Kollegar okkar upp á Suðurlandi bjóða bílstjórum að blása áður en lagt er af stað frá Landeyjahöfn, og sé fólk í minnsta vafa er gott að kanna stöðuna.“ segir hann og bendir á að fyrra hafi þeir tekið einhverja tugi á mánudegi eftir Þjóðhátíð, sem mældust yfir mörkum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst