Það var lið Breiðabliks sem tryggði sér TM móts bikarinn eftir sigur á liði Selfoss í úrslitaleik á Hásteinsvelli á sjálfan Þjóðhátiðardaginn 17. júní.
Það var allt í járnum lengi framan af og liðin skiptust á að sækja en það var Yasmin Ísold Rósa Rodrigues sem braut ísinn í síðari hálfleik og skoraði með glæsilegu langskoti sem var óverjandi.
Yasmin var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hún skoraði með hnitmiðuðu skoti úr teignum 2-0. Það var svo Thelma Gautadóttir sem innsiglaði sigur Blika þegar hún skoraði af harðfylgi úr teignum.
„Þetta er þrítugasta og fjórða TM mótið okkar. Við erum með 116 lið frá 35 félögum og í allt eru þetta um 1100 stelpur. Það er komin hefð á þessi mót. Við byggjum á skipulagi sem þróast hefur með árunum og reynst vel. Í ár er mótahaldið hefðbundið, ekki með takmörkunum eins og á Covid-árunum,“ segir Sigríður Inga Kristmannsdóttir sem stýrir báðum mótunum í síðasta blaði Eyjafrétta. Mótið hófst á fimmtudag og lauk í gær, laugardaginn 17. júní.
Mynd Sigfús Gunnar.
Breiðablik og Selfoss léku til úrslita á TM mótinu í ár.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst