Hörður Orri – formaður ÍBV í þjóðhátíðarspjalli – Salka Sól
„Það hefur verið fínt og bara gengið mjög vel. Það er búið að vera mikið að gera hjá félaginu almennt og mikið um stóra viðburði. Sumarið náttúrulega byrjar á TM mótinu og svo Orkumótið og nú Þjóðhátíð. Svo er auðvitað fótboltinn í fullum gangi og handboltinn að undirbúa tímabilið“ segir Hörður Orri Grettisson um sumarið hingað til sem nýr formaður ÍBV íþróttafélags, en hann tók við keflinu af Sæunni Magnúsdóttur nú í vor. Hörður hefur verið á ýmsum stöðum í félaginu en áður gengdi hann stöðu framkvæmdastjóra félagsins ásamt því að hafa setið í þjóðhátíðarnefnd í mörg ár. „Það hefur bara verið gaman að taka við nýju hlutverki“ segir Hörður.
Hvernig líst þér á komandi tíma hjá félaginu?
„Mjög vel, þetta er öflugt félag, við erum með frábært starfsfólk og öfluga sjálfboðaliða. Mig langar að efla öflugt yngri flokka starf ennþá frekar og til að vera með öflugt yngri flokka starf þá þarf líka að vera með öfluga meistaraflokka. Það er ekkert launungamál að reksturinn hefur verið erfiður hjá félaginu síðustu misserin og við höfum einbeitt okkur að því eftir að ég tók við sem formaður að kafa aðeins svona í reksturinn, beita meira aðhaldi og aga í fjármálum. En auðvitað liggja líka fyrir stór verkefni en félagið hefur verið að skoða að breyta skipuritinu og bæjaryfirvöld hafa tekið ákvörðun að setja gervigras á Hásteinsvöll sem er stór framkvæmd og verður félaginu til mikillar bóta, bæði í meistaraflokkunum og yngri flokka starfinu. En svona almennt bara spenntur og hlakka til að starfa með þessu öfluga fólki sem er í félaginu.“
Hvernig er að taka þátt í undirbúningnum sem formaður samanborið við þegar þú varst í þjóðhátíðarnefnd?
„Í þjóðhátíðarnefndinni sjálfri er mikið álag og mikið að gera, en undirbúningurinn hjá nefndinni hefst á fullum krafti í janúar eða eitthvað slíkt. Það að undirbúa hátíðarsvæðið og allt sem því fylgir er náttúrulega gríðarlega mikil vinna og á það svo við alla aðra sjálfboðavinnu hjá félaginu. Sem formaður félagsins hef ég meira bara svona verið að fylgjast með og hjálpað til þar sem að þörf er á enda er algjört einvala lið í nefndinni í ár eins og alltaf . Þannig að þetta er tvennt ólíkt.“
Er eitthvað öðruvísi við undirbúninginn á 150 ára stórafmæli?
„Ég held að uppskriftin að Þjóðhátíð sé til og gangi vel, en auðvitað er stórafmæli þannig það verða svona einhverjar nýjungar sem nefndin hefur nú þegar kynnt, en svona að mestu leyti held ég að undirbúningurinn sé bara sambærilegur frá því hvernig hann hefur verið undanfarin ár.“
Reiknar með glæsilegri hátíð
Ertu bjartsýnn á góða þjóðhátíð?
„Ég er það og ég held að Þjóðhátíð sé bara komin á einhvern ákveðinn stað, bæði hvað varðar framkvæmdina og svo fjölda, og ég reikna með að þetta verði glæsileg Þjóðhátíð eins og hún er alltaf.“
Ertu mikill þjóðhátíðarmaður?
„Já, ég er mikill þjóðhátíðarmaður og hef verið á þeim flestum síðan ég fæddist, þó þetta hafi kannski breyst eftir því sem maður eldist. Nú er maður sjálfur búinn að koma sér upp hústjaldi og upplifir þetta kannski öðruvísi eftir að maður eignaðist börn og svo framvegis. En mér hefur alltaf fundist þetta jafn gaman og auðvitað eru þessir stóru viðburðir sem eru í kringum miðnætti, brennan, flugeldasýning, brekkusöngurinn og blysin, það eru alltaf hápunktarnir og eru það áfram. En eftir að maður fór í sitt eigið hústjald þá hefur undirbúningurinn breyst aðeins, græja tjaldið og að gera þetta með börnunum sinum er öðruvísi og gríðarlega skemmtilegt.“
Á að taka þátt í búningakeppni?
„Nei, ég reikna ekki með því í ár en við vorum mjög duglegir í því, við vinahópurinn, þegar við vorum á yngri árum. Tókum þátt á hverju einasta ári, höfðum mjög gaman af og lögðum líka mikið í það á þeim tíma. Þannig að ég hlakka til að sjá búningana og vonandi verður góð þátttaka í því núna.
Við kölluðum okkur Lærisveinar Óla kokks, ég veit ekkert út af hverju, en við vorum alveg margt. Við byrjuðum í einhverjum kokkabúningum og svo vorum við The Mask eitt árið og Magnús Laddakarakterin, sem var klárlega uppáhalds búningurinn minn. Svo tókum við gott Henson tímabil þar sem að við fengum okkur meðal annars Þór og Týr íþróttagalla, og við létum líka sérsauma á okkur jakkaföt einu sinni,“ segir Hörður að endingu sem óskar öllum góðrar skemmtunar á Þjóðhátíð.
Úr þjóðhátíðarblaði Eyjafrétta – Salka Sól
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst