Sú skylda hvílir á okkur Íslendingum að skila af okkur landinu og miðunum til komandi kynslóða í jafn góðu ástandi og við tókum við því. Við fengum landið og gæði þess ekki til eignar frá foreldrum okkar, heldur höfum við það að láni frá börnum okkar. Verndun náttúrunnar er í raun forsenda fyrir því að yfirleitt sé hægt að hagnýta hana. Tilgangurinn með náttúruvernd er ekki einungis að setja til hliðar eða taka frá tiltekin verðmæti sem veita okkur ánægju, bæði núlifandi og komandi kynslóðum, heldur er hann ekki síður sá að stuðla að því að mannlífið fái yfirleitt þrifist.