„Það var mikið að gera hjá okkur þegar versta veðrið gekk yfir á föstudagskvöldið og fram á laugardagsnóttina. Við hjálpuðum fólki við að halda niðri hvítu tjöldunum og aðstoðuðum þegar Tuborgtjaldið fór af stað, ásamt fleirum smávægilegum verkefnum,“ segir Arnór Arnórsson formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja og sjúkraflutningamaður sem hafði í mörg horn á líta á Þjóðhátíðinni.
„Við vorum með um 20 manns í Dalnum. Erum ekki í gæslunni á Þjóðhátíð en erum til taks þegar eitthvað ber út af eins og gerðist á föstudagskvöldinu,“ segir Arnór en félagið fór í útkall á björgunarbátnum Þór þegar neyðarkall barst frá Reynisfjöru þar sem hafin var leit að níu ára stúlku á laugardaginn.
„Við fórum sex manns í miklum sjó, allt að fimm metra ölduhæð. Skipið reyndist mjög vel en því miður var lítið að gert. Stúlkan fannst og var úrskurðuð látin, því miður,“ segir Arnór.
„Hvað þjóðhátíðina varðar þá er óveðrið sem gekk yfir á föstudagskvöld og um nóttina það versta frá árinu 2002. Þá byrjaði hátíðin í slæmu veðri og endaði í brjáluðu veðri, þvert á allar veðurspár.
Það muna allir eftir Taltjöldunum sem fuku í fyrstu kviðu en nú er minna um aðkomutjöld og Rent a Tent tjöldin sluppu nokkuð vel.“
Arnór segir ekki hafa verið mikið að gera í sjúkraflutningum um helgina. „Það var rosalega rólegt á föstudeginum, einhver erill á laugardeginum og sunnudagurinn var heldur rólegur. Allt gekk þetta vel og greinilegt að hátíðin fór að mestu vel fram.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst