Hollvinasamtök Hraunbúða hafa frá árinu 2017 verið ómetanlegur bakhjarl heimilisins. Markmið félagsins er skýrt: að efla lífsgæði heimilisfólks, skapa gleði og brjóta upp hversdagsleikann. Halldóra Kristín Ágústsdóttir er formaður samtakanna.
„Við stofnuðum samtökin 16. febrúar árið 2017. Upphafið var nú þannig að afi minn hafði komið inn á heimilið í hvíldarinnlögn, hann var ekki nógu ánægður og mér fannst herbergið sem hann var í svo kuldalegt og stofnanalegt. Þetta sat í mér og seinna spurði ég þau upp á Hraunbúðum hvort ég mætti fara í yfirhalningu á þessum 2 hvíldarherbergjum, ég fékk fyrirtæki úr eyjum með mér, málaði, breytti og gerði herbergin hlýlegri. Eftir þetta kom Sólrún Gunnarsdóttir, (þáverandi deildarstjóri á Hraunbúðum) að máli við mig og kom með þessa uppástungu, að stofna Hollvinasamtök Hraunbúða.
Á þessum tíma var amma mín, Halldóra Kristín Björnsdóttir íbúi á heimilinu og fékk ég Dadda (Bjarna Ólaf Guðmundsson), Mara pípara, Kristínu Magnúsdóttur, Sólveig Adolfsdóttur, Inga Sig og Klöru Tryggva með okkur og stofnuðum samtökin, einhverjar mannabreytingar hafi orðið síðan,“ segir Dóra aðspurð um upphaf samtakanna og þeirra helstu áherslur.
Áherslur breytast
Hún segir áherslurnar hafa aðeins breyst á þessum árum sem félagið hafi starfað.
„Þegar við byrjuðum vorum við meira í að kaupa tæki inn á heimilið eins og hjólastóla, loftdýnur, hjartalínurita, lífsmarkamælir, öryggishnappa og svo mætti lengi telja.
Við ákváðum svo að reyna að einbeita okkur meira af því að auka lífsgæði heimilisfólks með því að brjóta upp hversdagsleikann, vera með skemmtilegar uppákomur og upplifanir. Okkur finnst í raun að HSU eigi að sjá um að skaffa heimilinu nauðsynleg tæki og tól þó við séum auðvitað alltaf til viðræðu ef eitthvað vantar. Við gáfum t.d. 98” sjónvarp til heimilisins í þarsíðustu viku.“
Dóra segir enn fremur að félagið bjóði einnig upp á nokkra árlega viðburði. „Má þar nefna vorhátíð, konukvöld, páskabingó, þrettándakaffi og jólatónleika. Ýmislegt er svo gert annað slagið eins og að bjóða heimilisfólki í kaffihúsaferð, allskonar tónlistarviðburði, út að borða og bíltúra.
Við reynum að styrkja Sonju í sinu starfi, það er ómetanlegt að hafa hana á heimilinu og hún er að gera virkilega góða hluti. Við fengum Láru Skærings í lið með okkur og hún kemur á tveggja vikna fresti og býður upp á stóla yoga. Við höfum einnig innréttað aðstandendaherbergið og hvíldarherbergið.” 
Styrkir og samfélagsstuðningur
Spurð út í hvernig gangi að afla tekna fyrir félagið segir hún að þau hafi verið einstaklega heppin með það hversu margir hafa sýnt félaginu hlýhug og styrkt það. „Við erum með um 150 reglulega styrktaraðila en meirihluti okkar tekna kemur frá öðrum styrkjum. Oft frá fjölskyldum heimilisfólks á Hraunbúðum sem vill heiðra minningu þeirra eftir andlát.
Einnig höfum við fengið styrki frá Ísfélaginu, Vestmannaeyjahlaupinu, Vosbúð, kótilettukvöldinu, Suðureyjafélaginu og ótal mörgum öðrum. Við erum óendanlega þakklát fyrir þennan hlýhug og reynum að nýta peninganna til góðra verka. Öll okkar vinna er unnin í sjálfboðastarfi og allt styrktarfé rennur beint í starfið.
Mig langar að nýta tækifærið og benda á að þeir sem vilja gerast styrktaraðilar geta sent skilaboð á facebook síðu Hollvinasamtakana, sent tölvupóst á hallda78@gmail.com, eða hringt í 8611105. Ársgjaldið er 3000 krónur.”
Gleðistundir sem lifa
Aðspurð hvað standi upp úr í starfinu segir Dóra að í þeirra starfi reyni þau að skapa aðstæður þar sem heimilisfólk og aðstandendur koma saman og skapa góðar minningar.
„Fólkið okkar á Hraunbúðum kemur þangað á lokaskeiði lífsins og við erum þakklát fyrir að hafa átt þátt í því að búa til þessar gæðastundir. Það er eitt það mikilvægasta í okkar starfi að mínu mati. Við höfum lagt mikið upp úr vorhátíðinni og konukvöldinu, bjóðum t.d. upp á flott söngatriði, góðan mat og lukkunúmer með flottum vinningum sem fyrirtæki í bænum styrkja okkur með.
Á vorhátíðinni erum við með eitthvað skemmtilegt fyrir krakka eins og leiki, andlitsmálningu og þess háttar. Á konukvöldunum höfum við fengið fyrirtæki í lið með okkur sem koma með vörur upp á Hraunbúðir svo heimilisfólk getur “farið í bæinn”, skoðað og jafnvel keypt eitthvað fallegt. Þetta hefur verið mjög vinsælt, sérstaklega hjá konunum á heimilinu sem eru þakklátar fyrir þetta framtak.“

Viðurkenning og hvatning
Í fyrra fengu samtökin sérstaka viðurkenningu frá Öldrunarráði Íslands fyrir framúrskarandi starf í þágu aldraðra. „Við erum virkilega stolt af henni,“ segir formaðurinn. „Það var mikill heiður og hvatning til að halda áfram.“
Hvernig sjáið þið fyrir ykkur næsta ár?
Okkur langar að bæta í og gera betur því það má nefnilega alltaf gera betur og ég sé fyrir mér að fá fleiri með okkur í daglegt starf. Einhvern sem getur komið í boði okkar 1 eða 2 sinnum í viku og boðið upp á afþreyingu fyrir heimilisfólkið.
Mér er minnisstætt þegar ég tók spjall við heimilisfólk fyrir nokkrum árum að þá sagði ein yndisleg kona að dagurinn væri bara endalaus bið, bið eftir að komast í kaffi, hádegismat, kvöldmat og þess háttar og svo væri hún bara að láta sér leiðast inn á herbergi þess á milli. Það hefur mikið lagast með tilkomu Sonju sem er með frábært starf en það er bara hluta af deginum og það væri frábært að geta stutt hana frekar og bætt við afþreyingu inn á heimilið.
Við tökum fagnandi ábendingum frá fólki og ef einhver þarna úti er með hugmynd eða væri til í að koma inn á heimilið t.d. föndur, sýningu á gömlum myndum eða myndbandsupptökum frá eyjum eða söng, þá værum við þakklát.
Aðalfundur framundan
Aðalfundur Hollvinasamtakanna verður haldinn 25. janúar. „Mig langar að óska eftir fólki til að koma með okkur í starfið. Við erum sjö í stjórninni eins og er og viljum endilega fá fleiri aðila í þetta með okkur. Við erum með nokkra viðburði á ári og þetta er svo dásamlegt og gefandi og engin binding, ef aðilar eru ekki á staðnum reddum við því.
Að lokum langar mig fyrir hönd okkar í Hollvinasamtökunum að þakka innilega allan þann hlýhug sem okkur hefur verið sýndur með styrkjum frá samfélaginu. Það væri ekki hægt að gera þetta án ykkar,” segir Halldóra Kristín Ágústsdóttir, formaður að lokum.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst