Garðar Jónsson, sérfræðingur hjá Skilvirk var fenginn til að gera óháða úttekt á rekstri vatnsveitunnar í Eyjum og hefur hann nú skilað skýrslu þar sem hann gerir grein fyrir niðurstöðum hennar. Bæjarráð fór yfir niðurstöður skýrslunnar á fundi sínum í vikunni.
Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru fjármagnsliðir tilgreindir í einni tölu í reikningsskilum án skýringa. Liðurinn hefur verið neikvæður frá 2009 og því um hreinan fjármagnskostnað að ræða. Skýrsluhöfundur fékk ekki frekari upplýsingar eða skýringar á þessum lið þrátt fyrir óskir þar að lútandi. Hlutdeild vatnsveitunnar í sameiginlegum rekstrarkostnaði HS Veitna 4,56% af sameiginlegum heildarkostaði við rekstur HS Veitna. Rekstrartekjur vatnsveitunnar eru hins vegar 2,66% af heildarrekstrartekjum HS Veitna.
Óljóst er hvaðan hlutdeild vatnsveitunnar í sameiginlegum kostnaði er til komin eða hvernig hún er reiknuð út. Þá kemur fram að skv. mati skýrsluhöfundar er virði vatnsveitunnar í raun og veru ekkert miðað við árlegar fjárfestingar sem þarf að fara í með tilheyrandi lántökum til að endurnýja elstu lagnirnar en 80% af heildarendurstofnverði lagna eru lagnir sem komnar eru á líftíma.
Í niðurstöðu bæjarráðs segir að það sé mikilvægt fyrir sveitarfélagið að allar upplýsingar um rekstur veitunnar liggi fyrir eins og kveðið er á um í lögum. Bæjarráð tekur undir með skýrsluhöfundi um að miðað við óbreyttar forsendur að þá sé það óskynsamlegt fyrir sveitarfélagið að taka yfir rekstur vatnsveitunnar. Vinna og samtal varðandi innlausnina heldur hins vegar áfram við HS Veitur skv. viljayfirlýsingu þar um.
Úr skýrslunni:
Í kaflanum “Lagnir og aðrar eignir” segir í niðurlaginu:
Athygli vekur að þrátt fyrir svo mikla endurnýjunarþörf sem hér hefur verið nefnd hafa fjárfestingar HS Veitna hf. í lagnakerfinu einvörðungu numið um 22 m.kr. árlega, undanfarin 10 ár, á núverandi verðlagi. Þá eru meðtaldar nýfjárfestingar auk endunýjunar eldri lagna. Miðað við hina 3,02 milljarða kr. endurnýjunarþörf sem líklegt er að nú þegar er til staðar, er ljóst að afar litlum fjármunum hefur verið varið til endurnýjunar lagnakerfisns undanfarin ár.
Í niðurlagi samantektarinnar segir orðrétt:
Að framansögðu er yfirtaka Vestmannaeyjabæjar á Vatnsveitu Vestmannaeya ekki fýsilegur miðað við þær forsendur sem lagðar eru hér til grundvallar. Verulegur hallarekstur til langs tíma kallar á áframhaldandi lántökur sem áfram þyngir reksturinn vegna aukins fjármagnskostnaðar. Endurnýjunarþörf lagnakerfisins er fyrirliggjandi eins og hér að framan hefur verið rakið. Auk þess munu fleiri lagnir þurfa endurnýjun fljótlega, þ.e. lagnakerfi sem nú eru 40-49 ára gamlar.
Virði vatnsveitunnar við þessar aðstæður er í raun og veru ekkert að mati skýrsluhöfundar og yfirtaka óraunhæf þó ekkert verði greitt fyrir hana. Veruleg meðgjöf með vatnsveitunni er eini raunhæfi möguleikinn til að gera yfirtöku á vatnsveitunni fýsilega fyrir Vestmannaeyjabæ.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst