„Veðrið og öldurnar voru ekki alveg að spila með okkur í gær en eftir smá baráttu tókst okkur að koma strengnum í land á sandinum. Skipið er nú á siglingu yfir til Vestmannaeyja og ef allt gengur samkvæmt áætlun verður strengurinn dreginn í land í Eyjum um kvöldmatarleytið,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets við Eyjafréttir í morgun.
Veður og sjólag hefur verið hagstætt frá því lagning strengjanna, VM 4 og VM5 hófst á sunnudaginn. Í gærkvöldi rauk hann um og ölduhæð fór upp undir tvo metra. Nú hefur lægt, ölduhæð komin niður fyrir einn metra. Lagningarskipið Aura er komið á móts við Elliðaey þannig að VM5 strengurinn ætti að komast í land fyrir kvöldið.
Lagning tveggja nýrra rafstrengja frá Landeyjahöfn til Vestmannaeyja hófst á föstudaginn. Verkið er unnið af norska fyrirtækinu Seaworks, sem sérhæfir sig í lagningu neðansjávarrafstrengja. Við það eykst flutningsgeta um 120 MVA – verklok áætluð um miðjan júlí.
Tilgangurinn er að bæta afhendingaröryggi raforku til Vestmannaeyja og tryggja örugga orkutengingu til framtíðar. Núverandi strengur hefur verið í notkun í 12 ár og hefur bilað tvisvar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst