Yfir 30 þúsund farþegar komu með skemmtiferðaskipum til Eyja á árinu
Tvo Skemmtiferdaskip 20250707 112459
Myndin er tekin í sumar. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Skemmtiferðaskip heimsóttu alls 33 hafnir og áfangastaði víðs vegar um landið á árinu 2025 og námu skipakomur 1.182 talsins, samkvæmt nýrri samantekt Cruise Iceland. Skipin fluttu samtals 333.394 farþega, sem dreifðust óvenju vel um landið, allt frá stærstu höfnum landsins til smærri og jafnvel afskekktra áfangastaða.

Ferðamenn komu meðal annars til staða sem jafnan teljast utan alfaraleiðar, svo sem Djúpavíkur á Ströndum, Grímseyjar, Flateyjar í Breiðafirði, Vigur í Ísafjarðardjúpi, Raufarhafnar og Drangeyjar í Skagafirði. Vestfirðir skera sig þar sérstaklega úr, en fjórðungurinn tók á móti rúmlega 250 þúsund farþegum, bæði með stórum skemmtiferðaskipum og minni leiðangursskipum.

Hafnartekjur nema 4,3 milljörðum króna

Tekjur hafna og sveitarfélaga af skemmtiferðaskipum námu alls 4,3 milljörðum króna á árinu. Samkvæmt Cruise Iceland eru þessar tekjur í mörgum tilvikum burðarás í rekstri hafna og gera þeim kleift að halda úti mikilvægum innviðum og þjónustu sem nýtist öllum skipum og bátum allt árið um kring, ekki aðeins skemmtiferðaskipum.

Vestmannaeyjar sterkur áfangastaður í suðri

Vestmannaeyjar voru meðal þeirra hafna sem skiptu verulegu máli í heildarmyndinni. Á árinu komu 79 skemmtiferðaskip til Eyja og fluttu þau 30.597 farþega. Tekjur hafnarinnar af skemmtiferðaskipum námu um 121 milljón króna, sem undirstrikar mikilvægi greinarinnar fyrir bæjarfélagið.

Þessar tölur staðfesta stöðu Vestmannaeyja sem einn af lykiláfangastöðum skemmtiferðaskipa á Suðurlandi, þar sem náttúra, saga og aðgengi mynda sterka heild fyrir farþega og skapa jafnframt umtalsverðar tekjur fyrir hafnarrekstur og samfélagið í heild.

Óvissa hafði áhrif á minni hafnir

Í samantekt Cruise Iceland kemur fram að óvissa um tollfrelsi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum hafi haft neikvæð áhrif á komur smærri skipa til minni hafna á árinu. Smærri skip sem sigla hringinn í kringum landið hafa notið tollfrelsis frá árinu 2012, en óljós staða mála leiddi til fækkunar í bókunum.

Sem dæmi fækkaði komum til Flateyjar í Breiðafirði úr 14 árið 2024 í aðeins 4 árið 2025, og á Patreksfirði fór fjöldi skipa úr 26 í 7. Bókunarstaða hafna bendir til þess að þessi þróun hafi víða haft áhrif á minni og meðalstórar hafnir.

Ánægja með breytingar á gjaldtöku og tollfrelsi

Sigurður Jökull Ólafsson, framkvæmdastjóri Cruise Iceland, segir að mikil ánægja ríki með nýlegar ákvarðanir stjórnvalda varðandi laga- og skattaumhverfi skemmtiferðaskipa.

Hann bendir á að breyting á innviðagjöldum hafi verið samþykkt á Alþingi með miklum meirihluta, þar sem gjaldið var varanlega lækkað úr 2.500 krónum í 1.600 krónur fyrir hverja 24 tíma. Jafnframt hafi verið samþykkt að halda áfram tollfrelsi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum, líkt og verið hefur frá árinu 2012.

Að sögn Sigurðar skiptir tollfrelsið gríðarlega miklu máli fyrir milli og minni hafnir, eins og skýrt komi fram í tölum samantektarinnar, og megi nú gera ráð fyrir að bókunarstaða fari að batna á nýju ári eftir tímabil óvissu.

Heildarmyndin sýnir að skemmtiferðaskip eru áfram mikilvæg stoð í ferðaþjónustu landsins, ekki síst fyrir hafnir og samfélög utan stærstu þéttbýliskjarnanna – þar á meðal Vestmannaeyjar, sem halda áfram að vera sterkur og eftirsóttur áfangastaður á korti skemmtiferðaskipa við Ísland.

Nýjustu fréttir

Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun
Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.