Gríðarleg spenna er á Íslandsmótinu í golfi þegar keppni er hálfnuð í Vestmannaeyjum. Axel Bósson, ríkjandi Íslandsmeistari, er efstur í karlaflokki á -8 samtals. Haraldur Franklín Magnús bætti vallarmetið og er aðeins tveimur höggum á eftir Axel. Vallarmetin á Vestmannaeyjavelli voru bætt á hvítum og bláum teigum í dag.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Anna Sólveig Snorradóttir, báðar úr Keili, eru efstar og jafnar á +5 samtals þegar keppni er hálfnuð á Íslandsmótinu í golfi 2018. Anna Sólveig gerði sér lítið fyrir og bætti vallarmetið á Vestmannaeyjavelli. Anna Sólveig lék á 65 höggum eða -5, þar sem hún fékk alls 9 fugla.

„Ég er mjög sáttur við hringinn. Við lögðum upp með að spila par 5 holurnar sem par 4 í dag og það gekk allt saman upp. Ég ætlaði mér ekki að fá skolla á hringunm og það tókst, átta fuglar og tíu pör,“ sagði Haraldur Franklín Magnús úr GR sem setti nýtt vallarmet í dag á Vestmannaeyjavelli. Haraldur Franklín lék á 62 höggum eða -8 og blandaði sér í toppbaráttuna á Íslandsmótinu í golfi 2018.

„Munurinn á fyrsta hringnum og í dag voru aðstæðurnar. Ég var fínn á fyrri 9 holunum í gær en aðstæðurnar voru aðeins erfiðari. Í dag fékk ég betri aðstæður og mér tókst að nýta það. Ég hélt að vallarmetið væri 62 högg og ég fór aðeins að pæla í því á 17. teig. Mig langaði í tvo fugla í röð og jafna metið -og það var því ánægjulegt að slá þetta met,“ bætti Haraldur við.

Axel Bóasson, Íslandsmeistari 2017, lék á 67 höggum í dag eða -3 og er hann efstur á samtals -8 og er Keilismaðurinn með tveggja högga forskot á Harald Franklín.

Gamla vallarmetið var 16 ára gamalt og átti Helgi Dan Steinsson það, 63 högg.

Staðan í karlaflokkunum er þannig:

1. Axel Bóasson, GK (65-67) 132 högg (-8)
2. Haraldur Franklín Magnús, GR (72-62) 134högg (-6)
3.-4. Andri Már Óskarsson, GHR (68-67) 135högg (-5)
3.-4. Björn Óskar Guðjónsson, GM (66-69) 135högg (-5)
5. Gísli Sveinbergsson, GK (69-67) 136 högg (-4)
6.-9. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR (70-68) 138 högg (-2)
6.-9. Stefán Þór Bogason, GR (70-68) 138högg (-2)
6.-9. Jóhannes Guðmundsson, GR (72-66) 138 högg -2
6.-9. Fannar Ingi Steingrímsson, GHG (70-68) 138 högg -2
10.-14. Henning Darri Þórðarsonm, GK (68-71) 139 högg (-1)
10.-14. Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR (67-72) 139 högg (-1)
10.-14. Lárus Garðar Long, GV (70-69) 139 högg (-1)
10.-14. Kristófer Orri Þórðarson, GKG (73-66) 139 högg (-1)
10.-14. Kristján Þór Einarsson, GM (70-69) 139 högg (-1)
15.-17. Hlynur Bergsson, GKG (67-73) 140 högg (par)
15.-17. Sigurður Bjarki Blumenstein, GR (69-71) 140 högg (par)
15.-17. Viktor Ingi Einarsson, GR (68-72) 140 högg (par)