Mik­il­vægt er að auka eins og kost­ur er sjúkra­flutn­inga með þyrl­um, bæði vegna breyt­inga á heil­brigðisþjón­ustu stofn­ana, ekki síst í Vest­manna­eyj­um, en einnig vegna mik­ill­ar fjölg­un­ar ferðamanna, á og utan al­fara­leiða. Þá er mik­il­vægt að skil­greina sjúkra­flug með þyrl­um sem heil­brigðisþjón­ustu og því beri að manna áhafn­ir þeirra í sam­ræmi við það. Einnig er mik­il­vægt að viðbragðstími sjúkraþyrlu sé ávallt sem styst­ur. Þetta eru niður­stöður starfs­hóps sem Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra skipaði til að skoða mögu­leika á auk­inni aðkomu þyrlna að sjúkra­flugi.

Hóp­ur­inn skoðaði tvær leiðir í þessu skyni; ann­ars veg­ar með auk­inni aðkomu Land­helg­is­gæslu Íslands, sem m.a. myndi reka sér­staka sjúkraþyrlu, og hins veg­ar með rekstri sjúkraþyrlu sem rek­in væri af öðrum en Land­helg­is­gæsl­unni.

Þrátt fyr­ir sam­eig­in­leg­ar áhersl­ur voru full­trú­ar í starfs­hópn­um ekki á einu máli um leiðir að mark­miðinu. Fimm af sjö full­trú­um hóps­ins leggja til að viðbragð Land­helg­is­gæsl­unn­ar verði styrkt með fleiri áhöfn­um svo unnt verði að koma á staðar­vökt­um, þ.e. með áhöfn sem er í viðbragðsstöðu þar sem viðkom­andi þyrla á bækistöð. Tveir full­trú­ar starfs­hóps­ins leggja hins veg­ar til rekst­ur sér­stakr­ar sjúkraþyrlu með sér­hæfðum mann­skap og að rekst­ur­inn verði ekki á hendi Land­helg­is­gæsl­unn­ar.

Starfs­hóp­ur­inn seg­ir í skýrslu sinni að þörf­in fyr­ir sjúkra­flutn­inga með þyrl­um muni fara vax­andi hér á landi. Helstu ástæðurn­ar fyr­ir því eru vax­andi sér­hæf­ing í meðferð bráðra veik­inda og slysa, minnk­andi geta heil­brigðis­stofn­ana í dreif­býli til að sinna bráðaþjón­ustu, al­menn aukn­ing sjúkra­flutn­inga og ekki síst mik­il fjölg­un al­var­legra slysa. Til marks um aukn­ingu sjúkra­flutn­inga jókst um­fang þeirra á ár­un­um 2014-2017 um 37% þar sem mest var, þ.e. á Suður­landi, Suður­nesj­um og á Ak­ur­eyri.

Ráðherra mun fela sér­fræðing­um ráðuneyt­is­ins að leggja mat á efni skýrsl­unn­ar og til­lög­urn­ar sem þar koma fram og ákveða næstu skref í fram­haldi af því.

Starfs­hóp­inn skipuðu:
Elsa B. Friðfinns­dótt­ir, sér­fræðing­ur í vel­ferðarráðuneyt­inu, formaður
Hjört­ur Kristjáns­son, fram­kvæmda­stjóri lækn­inga á Heil­brigðis­stofn­un Suður­lands
Ólaf­ur Gunn­ars­son, sér­fræðing­ur í vel­ferðarráðuneyt­inu
Sig­urður Ein­ar Sig­urðsson, til­nefnd­ur af Sjúkra­trygg­ing­um Íslands
Inga Þórey Óskars­dótt­ir, til­nefnd af dóms­málaráðuneyt­inu
Sandra M. Sig­ur­jóns­dótt­ir, til­nefnd af Land­helg­is­gæslu Íslands
Viðar Magnús­son, til­nefnd­ur af fagráði sjúkra­flutn­inga

mbl.is greindi frá