Á fundi fræðsluráðs í gæt óskuðu fulltrúar D-listans eftir umræðu um framtíðarsýn í húsnæðismálum GRV. Rætt var hugmynd um stækkun húsnæðis Hamarsskóla með það í huga að færa lengda vistun eftir skóla (Frístundaver) og tónlistarnám (Tónlistarskóla Vestmannaeyja) auk salar, eldhúss og matsalar inn í skólann. Upprunaleg grunnmynd af Hamarsskóla gerir ráð fyrir slíka stækkun í austur af núverandi húsnæði. Umræddar hugmyndir munu hafa ákveðna hagræðingu í för með sér auk þess sem þær samræmast hugmyndum sveitarfélagsins um samræmda þjónustu við börn.

Fulltrúar D-listans leggja fram eftirfarandi tillögu um framtíðarsýn í húsnæðismálum GRV
,,Húsnæðiskostur Tónlistarskólans í Vestmannaeyjum er farinn að þarfnast verulegra úrbóta. Húsnæðið er orðið gamalt og aðgengi sérstaklega fyrir hreyfihamlaða ekki eins og best verður á kosið. Hamarskóla hefur gjarnan vantað matar- og samkomusal og frístundaverið hefur verið í húsnæði sem ekki var hannað fyrir starfsemi þess og þörf er á að koma í hentugra húsnæði til frambúðar og tengja það við skólann. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að stofnaður verði starfshópur sem skoðar kosti þess að byggja við Hamarsskóla þannig að þar rúmist starfsemi Tónlistarskólans, frístundavers og að þar verði matar- og hátíðarsalur fyrir starfsemi skólanna. Markmið hópsins verður m.a. að koma með lausnir fyrir skólana og frístundaver með það að leiðarljósi að koma á rekstrarhagræðingu, bæta aðstöðu Hamarsskóla, auka aðgengi að tónlistarnámi og koma í veg fyrir fækkun barna í tónlistarnámi, stytta vinnudag barnanna og ýta þannig undir samverustundir fjölskyldunnar og almennt gera fræðsluumhverfið aðgengilegra fyrir börn.
Hópurinn verði skipaður skólastjóra GRV og aðstoðarskólastjóra Hamarsskóla, skólastjóra tónlistarskólans, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, framkvæmdastjóra framkvæmdasviðs, forstöðumanni frístundavers, formanni ráðsins, fulltrúa frá minnihluta og fulltrúa frá foreldraráði GRV. Lagt er til að starfshópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir lok síðari umræðna um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.”

Bókun meirihluta E og H lista
Fulltrúar meirihluta taka jákvætt í tillöguna en leggja til að afgreiðslu sé frestað til næsta fundar fræðsluráðs þannig að fulltrúar geti kynnt sér forsendur frekar.

Bókun minnihluta D lista
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að jákvætt sé tekið í erindið en harma það að ekki sé hægt að fara strax af stað í þessa mikilvægu vinnu þar sem tími fram að fjárhagsáætlunargerð er naumur.