Við erum enn 100 árum seinna með áhyggjur af samgöngum

Helga Kristín Kolbeins

Í gær 22. nóvember var haldinn hátíðarfundur í Bæjarstjórn í tilefni 100 ára kaupstaðarafmælis bæjarins. Þar voru kynntir viðburðir í tilefni tímamótanna þar sem vonandi allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Í máli mínu á fundinum kom ég inn á að þrátt fyrir að komin séu 100 ár frá því að við fengum kauptaðaréttindi og margt hafi breyst á þeim tíma eru enn sömu mál sem bæjarbúar höfðu áhyggjur af fyrir 100 árum og nú, heilbrigðis-, mennta-, og samgöngumál.  Þó blæbrigðamunur sé á þá voru samgöngur við „meginlandið“ eitt helsta áhyggjuefnið um að samfélagið gæti vaxið og blómstrað, heilbrigðismál voru í ólestri það vantaði sjúkrahús og lækna og svo vorum við ekki alveg sátt við mætingu á „foreldrafundi“ í skólanum.

Við erum enn 100 árum seinna með áhyggjur af samgöngum og erum einnig enn með þá skoðun að samgöngur séu eitt það mikilvægasta fyrir okkur sem búum hér. Nú spáir blíðu alla helgina en ekki er fyrirhugað að dýpka Landeyjahöfn og Herjólfur siglir ekki samkvæmt fullri áætlun vegna grynninga í höfninni!!  Er ég hafði samband við Vegagerðina þá sögðu þeir að dýpkunarskipið sem við höfum haft sé farið frá landinu og ekki fengist mannskapur á skip Björgunar!! Þetta eigum við ekki að sætta okkur við og sýnir vel að við verðum að hafa full yfirráð yfir þeim þáttum er skipta samfélagið hér meginmáli. Búið er að semja við Björgun með áratugagömul ófullnægjandi skip og má þá búast við þetta ástand verði viðvarandi næsta árið hið minnsta. Því fasti dælubúnaðurinn sem á að setja upp í Landeyjahöfn verður ekki tilbúinn til notkunar fyrr en eftir ár í fyrsta lagi.

Við getum lært margt af sögunni og vissu forverar okkar hér í Eyjum að eina leiðin til að hafa hlutina í lagi var að hafa full yfirráð yfir þeim. Þeir keyptu varðskipið Þór, fyrsta varðskip Íslendinga eftir að þeir fengu nóg af yfirgangi erlendra veiðiskipa og aðgerðaleysi stjórnvalda. Eyjamenn stofnuðu „Rit og talsímahlutafélag Vestmannaeyja“ og lögðu símalínu frá meginlandinu og ráku í nokkur ár félagið, eftir að stjórnvöld neituðu að leggja síma út í Eyjar. Við erum að ná þeim áfanga að fá full yfirráð yfir Herjólfi til að skipið þjóni hagsmunum bæjarbúa og engra annarra, en eftir stendur dýpkun hafnarinnar. Bæjaryfirvöld áttu að gera kröfu um aðkomu að tilboðsgerðinni og bæjaryfirvöld eiga að gera athugasemdir uppfylli tilboðsgjafar ekki skyldur sínar eins og nú er að gerast.

Við þurfum og eigum að vera í stöðugri hagsmunagæslu fyrir samfélagið okkar og nú þurfum við að spyrja okkur áleitinna og krefjandi spurninga um hvers vegna dýpkunarmálin eru í þessari stöðu. Augljóst er að hagsmunagæslan hefur brugðist og við verðum nú þegar að taka málið föstum tökum því tilboðið gildir næstu tvö árin. Ef ekki verður farið að dýpka núna allra næstu daga eigum við að krefjast þess að tilboðinu verði rift og fá í framhaldinu aðkomu að málinu.

Það gætir enginn hagsmuna Vestmannaeyinga gagnvart stjórnvöldum ef Bæjarstjórnin gerir það ekki. Það er nóg komið af aðgerðarleysi og nú þarf að girða sig í brók og krefjast aðgerða. Lífæð samfélagsins er í húfi og aðstæður þar eru óboðlegar.

Helga Kristín Kolbeins, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins