Njóta eða neyta?

Umhverfis Suðurland er áhersluverkefni og sameiginlegt átak sveitarfélaganna fimmtán á Suðurlandi með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Það gengur út á öflugt árvekni- og hreinsunarátak þar sem íbúar, fyrirtæki og sveitarfélög í landshlutanum eru hvött til enn meiri flokkunar og endurvinnslu en nú er, auk þess sem ráðist verður í almenna tiltekt í landshlutanum í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

Um mánuður er nú til jóla og margir farnir að huga að hátíðunum. Jólin hafa á mörgum heimilum snúist upp í andhverfu sína og veldur fjölskyldum streitu og vanlíðan, um þetta hefur margoft verið fjallað. En nú er kjörið tækifæri að endurmeta hlutina og hvað er okkur kærast í lífinu. Reynum að einbeita okkur að náungakærleikanum, nærverunni og notalegheitunum þessi jólin, og leyfum því að dreifast út allt árið. Samverustundir eru besta gjöfin, allan ársins hring.

Nú líður að stærstu verslunardögum ársins þar sem margir rjúka af stað í hugsunarleysi á höttum eftir tilboðum en raunveruleikinn er sá að jólakötturinn kemur ekki á eftir þeim sem eignast ekki nýja flík. Allar vörur sem framleiddar eru hafa áhrif, því er mikilvægt að vera upplýstur um umhverfisáhrif og samfélagsaðstæður í upprunalandi varanna og hafa í huga hver fórnarkostnaður þeirra er.  Upplifanir, heimatilbúnar jólagjafir og gjöf í góðgerðarmál eru sennilega bestu pakkarnir undir tréð og veita mestu hamingjuna. Hvort vilt þú njóta eða neyta með þínum nánustu um hátíðirnar? Skoraðu á sjálfan þig og vini að neyta minna og njóta meira, gjafir sem enginn þarf eru ekki góðar gjafir þó þær séu gefnar með góðu hugarfari og á það við um okkur öll, jólasveinana og leynivinina.