234. fundur fjölskyldu- og tómstundaráðs var haldin í gær. Þar var meðal annars umræða um frístundastyrkinn. Frístundastyrkur er veittur til barna á aldrinum 2 – 18 ára. Fram kom að um 277 börn af 872 hafa fengið úthlutað styrk sem er um 44% nýting. Flest í úrræðum hjá ÍBV íþróttafélagi, fimleikafélaginu Rán og í Tónlistarskóla Vestmannaeyja. Hlutfallslega nýta flest börn í árgangi 2006 og 2011  frístundastyrkinn. Hlutfall kynja er 54% drengja á móti 46% stúlkna.

„Ráðið leggur til að styrkurinn hækki um 10.000 kr. frá og með næstu áramótum og felur framkvæmdastjóra að gera ráð fyrir því í gerð fjárhagsáætlunar. Styrkurinn mun því verða 35.000 kr á barn frá 1. janúar 2020. Ráðið hvetur þá sem ekki hafa nýtt styrkinn fyrir börnin sín þetta árið að gera það,“ segir í fundagerð ráðsins.

Við afgreiðslu málsins lögðu fulltrúar D-lista, Gísli Stefánsson og Páll Marvin Jónsson fram eftirfarandi bókun. „Það er gleðilegt að Vestmannaeyjabær sjái kost á að hækka frístundastyrkinn. Það er ánægjulegt að sá sterki fjárhagslegi grunnur sveitafélagsins geri okkur kleift að styrkja íþrótta- og tómstundastarf. Við teljum þó mikilvægt, í ljósi þess hve lágt hlutfall er að nýta sér styrkina, að farið verði í vinnu við að skoða þarfir og vilja þeirra sem nýta sér þjónustuna.“