Slökkviliðið var ræst út núna í hádeginu þegar tilkynnt var um eld í ökutæki sem lagt hafði verið í stæði, nálægt húsnæði við Hásteinsveg. Þegar fyrsti bíll kom á vettvang var mikill hiti og reykur í bílnum og laus eldur í vélarrými sem var farinn að teygja sig í mælaborðið. Upphafseldur var fljótt slökktur með handslökkvitæki en til frekara öryggis var vatni frá dælubíl sprautað yfir og vettvangur kældur niður. Ljóst er að ekki mátti muna miklu að bíllinn yrði alelda með tilheyrandi hættu fyrir nærliggjandi húsnæði. Eldsupptök eru ókunn en grunur leikur á að kviknað hafi í út frá miðstöð bílsins sem hafði verið í notkun skömmu áður, en bifreiðin er mikið skemmd eftir brunann.