Gangi veðurspáin fyrir næstu daga og viku eftir þá lítur út fyrir að það hlýni töluvert frá því sem nú er ásamt því að spáð er rigningu og roki. Við þessar aðstæður getur skapast mikil hálka og fólk því hvatt til að fara varlega. Slökkvilið Vestmannaeyja hvetur fólk til að huga að og moka frá niðurföllum við hús sín sem og á götum þar sem því verður við komið svo að rigningarvatn og bráðinn snjórinn eigi greiða leið á haf út. Að öðrum kosti er töluverð hætta á að leysingavatn komist inn í húsnæði með ófyrirséðum afleiðingum.