Vefurinn vísir.is greinir frá því að fyrstu loðnutorfur vetrarins eru fundnar á Íslandsmiðum. Leitarleiðangur þriggja skipa undir forystu hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar sá torfur norður af Hornströndum og Húnaflóa.

„Þetta er nú ekkert gríðarlegt magn sem við sáum í heildina,“ sagði Birkir Bárðarson leiðangursstjóri í samtali við fréttastofu nú um miðjan dag en Árni Friðriksson var þá að koma í höfn á Ísafirði.

Fylgjast má með leitinni á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

„Við sáum eitthvað af loðnu vestur af Kolbeinseyjarhrygg,“ sagði fiskifræðingurinn en loðna sást á svæði um það bil þrjátíu mílur vestur af Kolbeinseyjarhrygg og að Kögurgrunni. Þar vestur af er ís á dreif.

Birkir sagði þetta mestu loðnuna sem þeir hefðu séð til þessa í leiðangrinum og fyrstu eiginlegu loðnutorfurnar. Hann taldi samt ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni. Staðan væri óbreytt en spyrja þyrfti að leikslokum.

„Við erum að leggja að á Ísafirði, komnir í var. Það er orðið óvinnandi hérna úti,“ sagði Birkir og gerði ráð fyrir að þeir þyrftu að bíða af sér veðrið næstu tvo sólarhringa. Veðurútlitið væri þannig að vart yrði farið út aftur fyrr en á föstudag.

Þá yrði haldið áfram að kanna Vestfjarðamið vestur fyrir Víkurál í þessari umferð. Í febrúar væri svo stefnt að því að fara í annan leiðangur.

Tekið af visir.is