Ísfisktogarinn Smáey VE landaði fullfermi eða 70 tonnum í Vestmannaeyjum sl. þriðjudag og kom aftur inn í morgun með rúmlega 30 tonn. Heimasíðan ræddi við Egil Guðna Guðnason stýrimann og spurði hvernig veiðar hefðu gengið. „Það verður að segjast að veiðarnar gengu vel. Í fyrri túrnum vorum við í Breiðamerkurdýpinu og uppistaða aflans þar var ufsi og ýsa. Við vorum þá fjóra sólarhringa á veiðum og fyrri tvo sólarhringana var veðrið hundleiðinlegt  en síðan kom loksins langþráð bongóblíða sem hefur ríkt síðan. Það er svo gríðarlegur munur að vinna í góðu veðri, það verður allt svo mikið einfaldara og þægilegra. Í seinni túrnum vorum við einungis að veiðum í einn og hálfan sólarhring og þá var fiskað í Háfadýpinu. Aflinn var 32 tonn og uppistaðan var karfi. Á þessu sést greinilega að það er búið að vera hörkufiskirí,“ segir Egill Guðni.

svn.is greindi frá