Togarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK-255 sem gerður er út af Þorbirni í Grindavík liggur nú við bryggju í Vestmannaeyjahöfn með 22 skipverja um borð í svo kallaðri biðkví.

Brynjólfur Stefánsson stýrimaður á Hrafni segist í samtali við Eyjafréttir lítið vita um framhaldið hjá þeim. „Við vitum ekkert fyrr en í kvöld í fyrsta lagi það verða teknar einhverjar ákvarðanir þegar komin er niðurstaða úr þeim sem voru prófaðir í nótt.“

Tíu dagar eru síðan Hrafn var í landi síðast en til stóð að togarinn kæmi inn til löndunar í Grindavík á þriðjudag. „Við vorum fyrir austan Eyjar hefðum átt að vera í landi á þriðjudag og vorum farnir að þoka okkur vestar til að stytta heimsiglinguna. Þegar veikindin byrjuðu að á gerast um borð var byrjað að tala við öryggisfulltrúa fyrirtækisins, sem hefur samband við viðbragðsaðila. Þetta er allt gert samkvæmt vinnureglum hjá fyrirtækinu. Það er svo tekin ákvörðun í framhaldinu að fara inn til Vestmannaeyja,“ sagði Brynjólfur.

Brynjólfur segir að alls hafi 17 veikst um borð en flestir náð sér en það hefur gengið yfir mis hratt. „Þeir eru tveir sem hafa verið verulega slappir núna í á fjórða sólarhring.“

Brynjólfur segir að allt hafi verið gert um borð til að draga úr smit hættu. „Það er mjög erfitt að aðskilja menn um borð við höfum gert allt sem við getum í spritti, handþvotti og þrifum um borð en það er bara ómögulegt að halda í einhverja tveggja metra reglu um borð í togara eins og þessum.“

Aðspurður um ástandið um borð sagði Brynjólfur að það væri bara létt yfir mönnum. „Menn bíða bara það eru allir að halda haus, menn eru á leiðinni í frí, sem verður vonandi ekki í sóttkví.“