Upplýsingafundur almannavarna fór fram klukkan 14:00 í dag. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Alma D. Möller, landlæknir fóru yfir stöðuna í COVID-19 faraldrinum. Gestir á fundinum voru þeir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Þórólfur kom inn á það á fundinum að engum núverandi aðgerðum verður ekki aflétt fyrr en eftir 4. maí og sagði að létta þurfi á aðgerðum í skrefum. Aflétting aðgerða verður líklega á þriggja til fjögurra vikna fresti og halda áfram fram á sumar. Líklegt er að takmarkanir verði á stórum samkomum í sumar. Hann sagði líklegt að heilbrigðisráðherra muni birta aðgerðaáætlun í vikunni eftir páska.