Fólk býr á heimilum
Beinn stuðningur ríkisins við fyrirtæki og heimili með tveimur aðgerðaráætlunum ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er orðinn víðtækur. „Heimilin í landinu“ eru aðeins önnur orð yfir „fólkið í landinu“. Grunngæðum samfélagsins er því miður misskipt en viðbrögð við faraldrinum ná til allra með einhverjum hætti. Myndarlegar upphæðir ganga núna til geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu, átaks gegn heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og viðkvæmum hópum. Til stuðnings tómstundastarfi barna og virkni foreldra langveikra barna, og til úrræða við félagslegri einangrun fólks, til fjölgunar alls kyns námsúrræða og einnig til sérnámskeiða fyrir atvinnuleitendur og til tímabundinna starfa fjölda námsmanna. Stutt er við aukin félagsstörf aldraðra og öryrkja og félagslega aðstoð við fjölskyldur með fötluð börn og börn af erlendum uppruna. Fjölmörg heimili fá sérstakan barnabótauka greiddan í júní, sá auki verður tekjutengdur þannig að tekjulægri heimili fá hærri eingreiðslu. Fleira má nefna, m.a. fæst fé úr Fasteignasjóði sveitarfélaga til þess að bæta aðgengi og starfsaðstöðu fatlaðs fólks.

Fólk vinnur hjá fyrirtækjum
Í báðum aðgerðaráætlununum eru valdar aðgerðir sem gagnast fyrirtækjum að öllum stærðum og einyrkjum. Lokunarstyrkir fást til fyrirtækja er var skipað að hætta starfsemi. Ríkistryggð stuðningslán eru í boði til minni fyrirtækja til viðbótar við mun hærri brúarlán til allra. Hlutastarfabætur ríkisins renna áfram beint til launamanna, fresta má greiðslu tekjuskatts lögaðila vegna 2019 og jafna hagnaði þess árs móti tapi ársins 2020, og reglum um eftirgjöf skulda lögaðila er breytt. Skattaívilnanir vegna nýsköpunar- og sprotastarfsemi eru auknar og umhverfi beinna styrkja bætt. Aðstoð við fyrirtæki er að stórum hluta aðstoð við launamenn og launamenn og einyrkjar eiga heimili. Talið um að sneitt sé framhjá fólkinu og heimilunum, en fyrirtækjum fremur hyglað, er útúrsnúningur og pólitísk brella.

Samvinna við sveitarfélög
Sveitarfélög um allt land verða fyrir margháttuðu álagi í Covid-19 faraldrinum og þau eru misvel undir það búin. Í einhverjum tilvikum ræður stærðin miklu, í öðrum skiptir mála hvaða atvinnugreinar vega þyngst og í sumum er um að ræða misvægi á milli framlaga ríkisins til alls konar verkefna og hraðrar íbúafjölgunar eða nýs atvinnumynsturs.  Tekjutap sveitarfélaga er augljóst og því er misskipt. Tillögur um að lækka gjöld enn frekar, jafnvel gefa fasteignagjöld eftir heyrast, einkum frá fyrirtækjum. Áhyggjur af Jöfnunarsjóðnum eru augljósar. Óljóst er hve mikil lækkunin verður en gera má ráð fyrir að hún verði 4 – 5 milljarðar kr. Því verður 1,5 milljarði kr. af bundnu fjármagni sjóðsins varið til greiðslu framlaga í ár. Frekari umræða um málefni sjóðsins fer fram innan samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga, ásamt öðrum aðgerðum sem snúa að sveitarfélögunum. Ráðherra hefur falið Byggðastofnun að vinna greiningu á þeim vanda sem blasir við einstökum sveitarfélögum og svæðum. Að einhverju leyti munu átaksverkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar mæta þeim erfiðleikum, en greina þarf frekar sértækar aðgerðir og áskoranir einstakra svæða. Minni séraðgerðir eru nokkrar, t.d. fjárveiting til stafrænnar þróunar á vegum sveitarfélaga til að bæta þjónustu og auðvelda samskipti og fé í gegnum byggðaáætlun til fámennra byggðarlaga, m.a. vegna aukinnar félagsþjónustu.

Ferðaþjónusta í lykilhlutverki
Lausnir á vanda Icelandair og flugfélaga í innanlandsflugi eru sérlega flóknar enda um marga starfsmenn og kjarnastarfsemi að ræða, einkum í utanlandsflugi. Þar eru uppsagnir þegar orðnar víðtækar og mikið áhyggjuefni. Þá þyngist enn þrýstingur á bótakerfið. Icelandair reynir hvað fyrirtækið getur til þess að forðast gjaldþrot en ríkið lýst því yfir að það muni tryggja lágmarkssamband loftleiðis til og frá landinu, fari allt á versta veg. Innanlandsflug verður hluti almenningssamgangna og leita verður allra leiða, ekki bara skoskra til að auka veg þess. Á sunnanverðu landinu kemur hrun ferðaþjónustunnar fram með mjög alvarlegum afleiðingum. Við því verður brugðist með æ meiri þunga um leið og hugað er vandlega að því hvernig risaálaginu á ríkissjóð og Seðlabanka verður mætt. Lækkun tekjuskatts, endurgreiðsla gistináttagjald eða lækkun tryggingargjalds myndu hafa veruleg áhrif í þá veru.

Horft til fjölbreytni
Þegar fram í sækir er ljóst að fjölga verður atvinnugreinum og þar er matarframleiðsla og að hluta útflutningur stórvægur. Í fyrsta sinn er til nýsköpunarstefna á Íslandi. Búið var að auka fé til nýsköpunar áður en faraldurinn hófst og breyta skipulagi og fjármögnunarleiðum í þágu öflugari vinnu. Með „pökkunum“ tveimur er enn bætt við. Fyrirtæki í nýsköpun og tækniþróun fá skattaívilnanir, endurgreiðslur til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar eru hækkaðar úr 20 í 25%, Tækniþróunarsjóður efldur, nýr sprota- og nýsköpunarsjóður stofnsettur (Kría) og ríkið leggur mótframlag til nýsköpunarfyrirtækja með verkefni nálægt lokastigi. Rýmkað er um fjárfestingar lífeyrissjóða í nýsköpun. Matvælasjóður tekur til starfa við nýsköpun og þróun matvæla. Samningum við garðyrkjubændur verður lokið með aukaframlagi og auknu fé til niðurgreiðslu raforkukostnaðar. Sérstakur nýsköpunarsjóður námsmanna verður efldur. Nóg að gert? Efalítið ekki og eftir mat á framgangi nýsköpunar, m.a. utan SV-hornsins, verður staðan endurskoðuð og fleiri aðgerðir kynntar.

Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi