Það var vorið 2018 að eiginmaður minn, Sigmar Logi, kemur að orði við mig um að hann sé yfirmáta heillaður af nýjum Herjólfi og hann langi til þess að sækja um þá auglýsta skipstjórastöðu á skipinu.

Það var ekki laust við að hjartað tæki kipp við allar þessar upplýsingar skipstjórans þetta fallega vorkvöld því lífið var svo sannarlega ljúft, allt í föstum skorðum, Sigmar sigldi Baldri yfir Breiðafjörð og við höfðum komið okkur vel fyrir í húsinu sem foreldrar Sigmars höfðu byggt svo fallega og við fest kaup á.

Svo fór að umsókn var send inn á síðustu stundu, Sigmar fékk starfið og var því á leið með fjölskylduna á vit ævintýranna í Vestmannaeyjum.

Bæði erum við hjónin fædd og uppalin í Stykkishólmi, Sigmar örlítið veraldarvanari en ég, en þarna hafði ég alltaf búið, alin upp af ömmu og afa, þekkti hverja þúfu og hvern stein, eyjar Breiðafjarðar mitt hjartans mál og Stykkishólmur nafli alheimsins í mínum huga.
Að slíta upp gamlar og sterkar rætur og flytja þær á nýjan stað var nær óhugsandi.

Einar Bergmann, Sigmar Logi, Linda Bergmann, Brynhildur Inga og Sigmar Logi Jr.

Það var svo síðsumarkvöld í ágúst að fjölskyldan sigldi með allt sitt hafurtask inn fallegustu innsiglingu landsins og þá var ekki aftur snúið. Stórbrotin náttúran heillaði en það sem átti eftir að heilla okkur hvað mest og við vissum ekki þá var allt það góða fólk er eyjuna byggir.

Eyjamenn eiga sér fáa líka. Hér er náungakærleikurinn ofar öllu öðru. Allir opnuðu faðm sinn, boðnir og búnir að koma þessu nýja fólki inn í samfélagið og hvar sem við komum fundum við strax hvað við vorum innilega velkomin.
Mér er það svo minnistætt er ég fór með bílinn á verkstæðið til Harðar og Matta rètt fyrir jólin og spurði hvar best væri að fara í skötu á Þorláksmessu og ekki stóð á svarinu, auðvitað kæmi ég bara með fjölskylduna til þeirra sem ég og gerði. Þetta er svo lýsandi dæmi fyrir Eyjamenn.

Ég var ekki lengi að heillast af Heimakletti og fljótt kynntist ég því góða fólki er hann sækir. Það er fátt skemmtilegra en að ganga klettinn með Höllu Svavars og hennar fjölskyldu, fá góða sögu frá liðnum tíma og svo erum við líka sammála um að tilfinningin á toppi Heimakletts er einfaldlega betri en annars staðar.

Ég gæti nefnt svo ótal marga kosti við það að búa í Vestmannaeyjum og í dag er ég afar þakklát mínum manni fyrir að hafa kolfallið fyrir nýjum Herjólfi.

Við fjölskyldan getum svo sannarlega staðfest það að Vestmannaeyjar er alltaf góð hugmynd 🙂

Hjartans þakkir fyrir mig

Linda Bergmann