Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Úthlutunin fer fram á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir með sama hætti og undanfarin ár. Tekið er fram að enn eru fáein skip ófrágengin og getur því úthlutun til skipa enn breyst lítillega.

Að þessu sinni er úthlutað 353 þúsund tonnum í þorskígildum talið samanborið við um 372 þúsund þorskígildistonn í fyrra. Af þeim fara til Vestmannaeyja tæp 37 þúsund tonn eða 10,45% sem deilist á 23 skip og báta. Þar trónir á toppnum Breki VE með tæp 6.700 tonn lista yfir báta með heimahöfn í Vestmannaeyjum má sjá hér að neðan.

Vakin er athygli á að síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Benda má sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Ætla má að heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra breytist í kjölfar frekari úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið.

Tölurnar miðast við slægðan fisk þar sem við á. Sérstakar úthlutanir aflamarks eru ekki innifaldar í tölunum.