Val á Stofnun ársins 2020 var kynnt á dögunum en könnun er gerð árlega hjá stofunum ríkis og sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum, þar sem lagt er mat á starfsumhverfi stofnana í opinberri þjónustu. Athygli vekur hversu margir skólar raða sér á topplista þessa árs. Á lista yfir Fyrirmyndarstofnanir á vegum ríkisins eða sjálfseignarstofnana, með 50 starfsmenn eða fleiri, eru þrír framhaldsskólar; Fjölbrautaskólinn í Garðabæ vermir 2. sætið, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra 3. sætið og Menntaskólinn við Hamrahlíð það fimmta. Á lista yfir slíkar Fyrirmyndastofnanir með 20-49 starfsmenn eru fjórir framhaldsskólar; Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum í 1. sæti, Menntaskólinn á Tröllaskaga í 2. sæti, Menntaskólinn á Laugarvatni í 3. sæti og Menntaskólinn á Egilstöðum í því fimmta.

Samgleðst starfsfólki og stjórnendum
Við ræddum við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og óskuðum eftir viðbrögðum hennar við þessum glæsilega árangri Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum og annara menntastofnanna. „Mér finnst þessar niðurstöður í einu orði sagt stórkostlegar! Kennarar og skólastjórnendur hafa greinilega búið til frábæra vinnustaði og árangurinn er til vitnis um þann kraft og samtakamátt sem einkennir íslenska menntakerfið. Ég samgleðst starfsfólki og stjórnendum skólanna innilega með árangurinn sem í mörgum tilfellum er viðvarandi milli ára.“

Jákvæðni í miðju Covid-fári
Skýringuna telur Lilja liggja í mörgum mismunandi þáttum. „Augljóslega er margt vel gert í skólakerfinu. Öðruvísi yrði ekki til sú vinnustaðamenning sem birtist í þessum frábæru niðurstöðum. Ég fagna því sérstaklega að í miðju Covid-fári sé starfsfólk skólanna eins jákvætt og raun ber vitni, því víða hefur reynt á og fólk þurft að laga sig að ótrúlegum aðstæðum.“

Vítamínsprauta inn í starf skólanna á krefjandi tímum
Um mikilvægi viðurkenninga eins og þessara var Lilja ekki í nokkrum vafa. „Ég held að hún skipti meira máli núna en nokkru sinni fyrr og sé vítamínsprauta inn í starf skólanna á krefjandi tímum. Útnefning af þessu tagi gerir vinnustaði enn betri en ella, gerir hversdaginn sætan og eftirminnilegan fyrir alla. Hún er líka hvatning til allra um að halda áfram vegferðinni og hlúa enn betur að vinnustaðnum, enda vill enginn falla af toppnum.“