Fyrr á þessu ári auglýsti Vestmannaeyjabær eftir ábendingum, tillögum og styrkumsóknum undir heitinu Viltu hafa áhrif 2021? Markmiðið með þessu er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á bæinn sinn í gegnum fjárhagsáætlun næsta árs. Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, menningartengdrar bókaútgáfu, leiktækja á opnum svæðum og göngustíga.

Bæjarráð hittist á vinnufundi 16. nóvember sl. og tók ákvörðun um hverjir hljóta styrki í ár. Í fjárhagsáætlun ársins 2021 er gert ráð fyrir 11 m.kr. í Viltu hafa áhrif?. Alls bárust í ár 26 styrkumsóknir sem og fjöldi ábendinga um hvað betur má fara í Vestmannaeyjum. Bæjarráð þakkar bæjarbúum fyrir fjölbreyttar umsóknir og ábendingar. Það er ljóst að bæjarbúar eru hugmyndaríkir um hvernig gera megi góðan bæ enn betri segir í bókun bæjarráðs um málið. Upplýst verður um hvaða aðilar hlutu styrk við síðari umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn 3. desember nk. Styrkirnir verða svo formlega afhentir þriðjudaginn 8. desember nk.