Tjón á neysluvatnslögn var til umræðu á fundi bæjarráðs í gær en fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafa, í samstarfi við HS Veitur, átt fund með fulltrúum útgerðar Hugins VE þar sem leitast var eftir frekari bótagreiðslum til að tryggja skaðleysi íbúa Vestmannaeyjabæjar sem notendur vatnsveitunnar, vegna tjónsins sem varð á lögninni. Málið skýrist vonandi á næstu dögum.

Fyrir liggja endanleg drög að viljayfirlýsingu milli Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna, með aðkomu innviðaráðneytisins um viðbrögð við tjóninu á vatnslögninni, lagningu nýrrar vatnsleiðslu í samráði við HS Veitur og mögulega innlausn Vestmannaeyjabæjar á vatnsveitunni sem HS Veitur hafa óskað eftir.

Bæjarráði var falin fullnaðarafgreiðsla á viljayfirlýsingunni á bæjarstjórnarfundi þann 21. mars sl.

Bæjarráð fól í niðurstöðu sinni um málið bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsinguna fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar. Viljayfirlýsingin verður birt þegar hún hefur verið undirrituð af báðum aðilum.