Mælingar á loðnustofninum við Ísland hafa gengið erfiðlega á umliðnum tveimur árum, með þeim afleiðingum að engin loðnuvertíð var í fyrra eða í ár. Í ljósi þess að fiskveiðar eru helsta stoð íslensks efnahagslífs, þá er þessi staða einstaklega óheppileg. Óyggjandi vísbendingar úr mælingum á umliðnum mánuðum eru á þá leið að veiðistofninn sé sterkur. Að frumkvæði SFS og í samstarfi við Hafrannsóknastofnun var af þessum sökum farinn leiðangur á einu skipi nú í nóvember þar sem sýnum var safnað. Niðurstaða þeirrar sýnatöku gefur enn sterkari vísbendingar um góðar göngur kynþroska loðnu í lögsögunni.

Hafrannsóknastofnun fyrirhugar næst loðnuleit og -mælingu í janúar 2021. Þetta tímabil vetrarmælinga er jafnan stutt og á tíma þegar veður eru válynd. Hættan er því sú að mælingar verði ónógar til þess að unnt sé að ráðleggja veiðar á loðnu. Loðnan fer hratt yfir og hegðan hennar er óútreiknanleg. Vera kann að hún sé fyrr á ferðinni nú en síðastliðin tvö ár.

Af þessum sökum vilja SFS stuðla að því að unnt sé að hefja vetrarmælingar fyrr, þannig að skip fari til loðnuleitar og -mælinga í desember, í stað þess að bíða fram á nýtt ár. Samtökin eru því tilbúin að leggja Hafrannsóknastofnun til jafnvirði 65 milljóna króna til loðnuleitar og -mælinga í desember. Styrknum er ætlað að greiða að fullu fyrir úthald fjögurra mæliskipa í allt að 24 daga, kvörðun þeirra og vinnu sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar.

Góð loðnuvertíð getur að líkindum aukið útflutningstekjur um 30 milljarða króna og margföldunaráhrif í hagkerfinu öllu eru að líkindum tvöföld eða þreföld, líkt og með auknum tekjum starfsmanna sjávarútvegsfyrirtækja, sveitarfélaga og þjónustuaðila sjávarútvegs.

Það er von SFS að með verulega auknum fjármunum og þunga í loðnuleit og -mælingu megi enn betur tryggja kröftuga viðspyrnu upp úr þeirri efnahagslægð sem kórónuveirufaraldurinn hefur valdið.