Loðnuleit fjögurra skipa, sem hófst um helgina, er um það bil að ljúka. Hafrannsóknastofnun segir þó lítið hægt að segja á þessu stigi um niðurstöður leitarinnar.

Guðmundur Óskarsson, sviðstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við Fiskifréttir að það sé ekki fyrr en mannskapurinn og tölur séu komnar í hús og farið verði að vinna úr þeim sem hægt verði að meta árangurinn af loðnuleit síðustu daga. Leitin hafi hins vegar gengið mjög vel.

„Það hefur verið fínt veður hingað til.“ Búist var við leiðindaveðri seint í gær og í nótt, „en þeir verða nú búnir með mest af þessu sýnist mér áður en það skellur á,“ sagði Guðmundur þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í gærmorgun.

Hann sagði loðnu sjást víða á svæðinu, en skipin hafa flest verið að mæla fyrir norðan land á sömu slóðum og Polar Amaroq fyrir stuttu.

„Vestasta skipið, Ilvid, hefur verið á Grænlandssundi en hafísinn hefur verið að trufla þar. En það er meira ungloðnusvæði og ætti þess vegna ekki að hafa áhrif á markmið leiðangursins.“

Engin þátttaka í útboði
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fjármögnuðu þessa leit, en næst verður væntanlega haldið í hefðbundna loðnuleit á Árna Friðrikssyni í fyrri hluta janúar. Síðan verður farið í fleiri loðnumælingar í framhaldi af því, eins og áður hefur verið gert. Óvíst er þó hvort fleiri skip verða til taks í þær.

„Við vorum með útboð í loðnumælingarnar en það var engin útgerð sem bauð í það,“ segir Guðmundur. „Við þurfum þá að eiga samtal við þá og reyna að semja um þetta og á von á að það gangi vel.“

Minnir á fyrri tíma
Grænlenska skipið Polar Amaroq fann nokkuð magn af kynþroska loðnu austarlega fyrir norðan land í leiðangri sínum seint í nóvember. Guðmundur segir að það hafi komið nokkuð á óvart hversu austarlega hún var komin miðað við árstíma.

„Það minnir svolítið á fyrri tíma. Hún hefur ekki verið komin þetta snemma undanfarin ár, en við vitum ekkert hvað það þýðir nákvæmlega.“

Loðnubrestur hefur nú verið tvö ár í röð og margir bíða spenntir eftir niðurstöðum loðnuleitar. Alls óvíst er þó enn hvort hægt verði að ráðleggja veiðar, þótt vonir hafi vissulega glæðst.

„Við vonum auðvitað að það komi eitthvað út úr þessu, en þetta er náttúran sem við erum að eiga við og svo erum við með aflareglur sem við verðum að fylgja.“

Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að ástæða þess að Hafrannsóknastofnun telji rétt að fara til mælinga núna sé „að mögulega sé loðnan fyrr á ferðinni en undanfarin ár. Á 9. og 10. áratug síðustu aldar var algengt að loðna væri gengin austur fyrir land í desember. Í ljósi sögunnar og upplýsinganna frá síðustu viku er ekki hægt að útiloka að hún muni á næstu vikum ganga austur fyrir land og verði í janúar komin á hafsvæði þar sem mælingar eru erfiðar, þ.e. við suðaustanvert landið.“