Myndir af veiðikofanum í Elliðaey hafa löngum vakið athygli netverja víða um heim. Gula pressan í Bretlandi virðist hafa tekið þessa athygli á æðra stig í gær því bæði The Sun og Mirror fjalla um þetta dularfulla hús, tilveru þess og reifa hinar ýmsu kenningar sem uppi eru um húsið á myndinni. Meðal kenninganna er sú hugmynd að milljónamæringur hafi látið byggja húsið til að flytja þangað þegar uppvakningarnir rísa (zombie apocalypse). Önnur er sú að Björk Guðmundsdóttir búi í húsinu og einnig eru uppi sú tilgáta að húsið sé ekki til heldur einungis um brellur í myndvinnsluforriti að ræða. Líflegar umræður hafa sprottið upp í athugasemdakerfum miðlanna og talar einn netverji um að hann sé kominn með ógeð af Brexit og Covid og ætli að tæma allar bankabækur og kaupa húsið og setjast þar að.

Elliðaeyingurinn Ívar Atlason rakst á þessar fréttir í vafri sínu í leit að fréttum af enska boltanum. “Ég rak upp stór augu þegar ég sá kofann á forsíðum þessa stóru miðla. Fréttin er skemmtileg þó þetta sé algert bull og athugasemdirnar mjög líflegar,” sagði Ívar í samtali við Eyjafréttir.

Í umfjöllun miðlanna er þó einnig farið yfir hið sanna um tilveru og hlutverk kofans fræga. Hér sé á ferðinni veiðikofi í eigu veiðifélags Elliðaeyinga sem hafa eftir því sem við komumst næst litlar áhyggjur af uppvakningum eða öðrum kynjaverum.

hér að neðan má nálgast umfjöllun miðlanna bresku: https://www.thesun.co.uk/news/13469602/mystery-worlds-loneliest-house-deserted-island/
https://www.mirror.co.uk/news/world-news/mystery-worlds-loneliest-house-remote-23165114