Útibú Íslandsbanka í Vestmannaeyjum flytur í dag í nýtt og glæsilegt húsnæði að Strandvegi 26. Þar með lýkur 65 ára bankastarfsemi í gamla bankahúsnæðinu við Kirkjuveg. Öll hönnun og virkni nýja útibúsins tekur mið af sveigjanleika í skipulagi, nýrri tækni, öflugri ráðgjöf og þjónustuupplifun viðskiptavina.

Þórdís Úlfarsdóttir sagði í samtali við Eyjafréttir að undirbúningur flutninganna hafi gengið vel. „Við höfum  þó ekki frekar en aðrir farið varhluta af  Kórónaveirufaraldrinum og áhrifum hans.“ Þórdís segir tilhlökkun í bland við eftirsjá ríkja á meðal starfsmanna. „ Það er alltaf viss eftirsjá  í því að flytja frá stað sem fólki hefur liðið vel á en einnig tilhlökkun að flytja á nýjan stað og takast á við breytingarnar sem því fylgja.“

Aðspurð um framtíð bankaútibúa hafði Þórdís þetta að segja. „Framtíðarbankaþjónustan verður sambland af tæknilausnum og persónulegri þjónustu. Við vitum að það er þörf á góðri ráðgjöf við stærri ákvarðanir og því höfum við lagt mikla áherslu á fræðslu, bæði fyrir einstakling og fyrirtæki, en síðan vitum við að það er mikil eftirspurn eftir stafrænum lausnum við einfaldari aðgerðir. Útibú Íslandsbanka hér í Eyjum á sér langa og farsæla sögu, það hefur verið einn af hornsteinum bankans frá upphafi.  Það hefur verið styrkur okkar að hafa góðum og traustum starfsmönnum á að skipa alla tíð og einnig að hafa góða og trausta viðskiptavini.“

„Okkar markmið er og verður að veita bestu bankaþjónustuna og við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum okkar í nýja útibúinu,“ sagði Þórdís að lokum.