Eldur kviknaði í morgun í og við einn af kötlum Fiskimjölsverksmiðju VSV þegar olía sprautaðist þar yfir vegna bilunar í búnaði. Starfsmenn brugðust skjótt við, skrúfuðu fyrir olíuna og náðu að slökkva með dufttækjum á vettvangi. Svartan reyk lagði frá verksmiðjunni og sót barst um stund með vindi yfir hluta bæjarins.

„Þarna fór blessunarlega betur en á horfðist í fyrstu, þökk sé skjótum viðbrögðum starfsmanna og slökkvitækjum verksmiðjunnar. Við náðum tökum á þessu fljótlega og tjón er fljótt á litið ekki umtalsvert, aðallega þarf að þrífa svæðið af sóti,“ segir Unnar Hólm Ólafsson verksmiðjustjóri.