Hákon Daði Styrmisson handknattleiksmaður hjá Vfl Gummersbach í Þýskalandi sleit krossband í hné á æfingu liðsins á föstudaginn. Þetta kemur fram í nýjasta þætti hlaðvarpsþáttarins Leikhléið sem kom út í gærkvöld og handbolti.is greindi frá. Andri Heimir Friðriksson, bróðir Hákons Daða, er einn umsjónarmanna þáttarins og staðfesti hann þessar fregnir af bróður sínum.

„Læknirinn sagði að það væri að öllum líkindum slitið eða rifið,“ sagði Andri Heimir í þættinum að það hafi verið dómur læknis Gummersbach-liðsins eftir að hafa skoðað hné Hákons Daða sem fer í aðgerð strax á morgun.

Þar með leikur Hákon Daði ekki meira með Gummersbach á þessari leiktíð en hann kom til félagsins á síðasta sumri og hefur staðið sig afar vel. Í byrjun nóvember var greint frá því að Eyjamaðurinn hafi framlengt samning sinn við félagið til ársins 2024.