Árleg páskaeggjaleit Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum fór fram í gær, páskadag, í blíðskaparveðri á Skansinum. Viðburðurinn hefur verið árlegur þó heimsfaraldur hafi sett strik í reikninginn síðustu tvö árin.

Búið var að fela yfir 300 númeruð egg í páskalitum, víðsvegar á Skanssvæðinu og mættu vel á þriðja hundrað manns, börn og fullorðnir til að njóta samveru, útivistar og afþreyingar. Gula hænan mætti glaðbeitt og lífleg og vakti mikla lukku, ekki síst hjá yngri kynslóðinni. Páska-Jarl mætti og tók nokkur vel valin lög og stóðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í stórræðum við að útdeila vinningum,en öll börn fengu egg, þó sumir hefðu vissulega verið heppnari en aðrir og fengu stærri og veglegri páskaegg.

Sjálfstæðisflokkurinn vill koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra sem tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd viðburðarins, en fyrst og fremst þeim hundruðum bæjarbúa sem mættu og tóku þátt og fylltu viðburðinn af lífi og gleði.