Ég ólst mikið til upp í sveit hjá ömmu minni og afa ásamt því að fara í sveit til þeirra á sumrin. Þau voru öflug og sjálfstæð alveg til 90 ára aldurs, þegar þau sóttu íbúð með heimaþjónustu og fengu svo dvöl á hjúkrunarheimili ári eftir það. Eldra fólk er jafn ólíkt og það er margt. Sum þeirra þurfa aðstoð við grunnathafnir daglegs lífs á meðan aðrir þurfa litla sem enga þjónustu frá degi til dags. Heimaþjónusta þarf að vera öflug og aðstoðin meiri þannig að fólk sem kýs að búa áfram heima fái aukna aðstoð til þess. Dagdvöl þarf að vera sveigjanleg. Með því getur þjónustan aðlagað sig eftir mismunandi þörfum og mætt aðstæðum fólks.

Búseta og þjónusta
Ákveðið skarð hefur myndast hjá hópi aldraða þegar búseta í heimahúsi verður erfið og dvöl á hjúkrunarheimili hentar ekki eða er jafnvel ekki í boði. Við þurfum að tryggja áframhaldandi framboð á fjölbreyttu húsnæði í sveitarfélaginu. Við þurfum að leggja aukna áherslu á innleiðingu velferðartækni í þjónustu við eldra fólk.

Það er þeirra sem eru í bæjarstjórn að grípa inn í og bæta kerfið. Þjónusta á að vera einföld, aðgengileg og skilvirk. Hún á að snúast um þann sem nýtir hana en ekki kerfið sjálft. Finna þarf nýjar leiðir til að auka stuðning og heimaþjónustu samhliða því að stuðla að aukinni virkni. Heimastuðningur mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu. Hann felur í sér félagsleg samskipti og stuðning við dagleg verkefni. Félagsleg samskipti eru mikilvægur liður í að bæta andlegan líðan. Félagsleg einangrun er raunverulegt vandamál hjá eldra fólki sem við verðum að mæta.

Fjölþættur stuðningur fyrir alla
Markmiðið er að fólk geti búið í sínu eigin heimili eins lengi og það kýs með fjölþættum stuðningi, sem gerir því kleift að lifa innihaldsríku lífi og taka virkan þátt í samfélaginu. Þá tel ég það nauðsynlegt að 20 þjónustuíbúðir verði byggðar í Vestmannaeyjum þar sem framúrskarandi þjónusta er veitt. Ávinningurinn felst í hagkvæmni, auknum lífsgæðum og sjálfstæði þeirra sem þjónustuna sækja.

Höfundur situr í 5. sæti Eyjalistans