Við trúum því að fólki í Vestmannaeyjum sé almennt annt um sitt nærumhverfi og hafi á því einhverjar skoðanir, þó mishátt þær fari. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hafa metnaðarfulla og skýra sýn í skipulagsmálum.

Miðbærinn okkar getur orðið frábær
Ferðamenn sem til Eyja koma spyrja gjarnan hvar miðbærinn okkar er eiginlega að finna?  Sjálfstæðisflokkurinn vill styrkja miðbæinn í samstarfi við miðbæjarfélagið. Styrkja þarf ásinn frá Vigtartorginu og upp að Sagnheimum með því að markmiði að ramma bæinn betur inn og gera hann meira heillandi og sjarmerandi um leið. Vel heppnaðar endurbætur og uppbygging á miðbæjum sveitarfélaga víðs vegar um landið gefa okkur góða vísbendingu um hvað hægt er að gera hér, þar má nefna Selfoss, Seyðisfjörð og Siglufjörð.

Blómleg byggð á malarvellinum
Mikilvægt er að tryggja fjölbreyttar lóðir undir íbúðarhúsnæði. Landsvæðið í Löngulág er dýrmætt og mikilvægt er að vel takist til í undirbúningi og hönnun þess. Sómi þarf að vera af því svæði sem rís og byggð fjölbreytt. Við viljum kalla til hæfa hönnuði og halda samkeppni um svæðið því mikilvægt er að geta séð fyrir sér ólíkar útfærslur og mismunandi möguleika á uppbyggingunni. Svæðið býður upp á óteljandi tækifæri sem við megum ekki missa úr höndunum.

Mikilvægar úrbætur í umferðarmálum
Umferðarmál eru skipulagsmál. Það yrði óábyrgt að grípa ekki brátt til aðgerða á fjölförnustu og hættulegustu gatnamótum Vestmannaeyjabæjar. Við ætlum að bæta umferðaröryggi með því að setja umferðarljós á þessi gatnamót. Tilhugsun sú er hræðileg ef að á þessum svæðum yrðu einhvern tímann slys með óafturkræfum skaða, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið.

Í Vestmannaeyjum eru margir möguleikar til vaxtar. Þó landsvæði sé takmarkað eru ýmis tækifæri til þess að samfélagið geti haldið áfram að dafna og fólksfjölgun geti átt sér stað. Við viljum leggja okkar krafta á vogarskálarnar svo það geti orðið – því hér eigum við heima.

Margrét Rós Ingólfsdóttir
Theodóra Agustsdottir
Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins