Stjórn Vinnslustöðvarinnar hefur samþykkt að kaupa H-34-AV Gardar af norsku útgerðarfyrirtæki og bæta þar með við fjórða skipinu í uppsjávarflota sinn. Þar eru fyrir Huginn, Ísleifur og Kap.

Þetta kemur fram á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar, vsv.is og tilkynnti Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri um kaupin í boði með sjómönnum á skipum félagsins  síðdegis í dag.

Þar segir: Skipið fer nú i slipp í Danmörku til hefðbundinnar skoðunar vegna eigendaskipta. Að öllu óbreyttu kemur það til nýrrar heimahafnar í Vestmannaeyjum undir lok júnímánaðar og verður gert klárt til makrílveiða. Skipstjóri verður Jón Atli Gunnarsson núverandi skipstjóri á Kap VE.

Garðar á sér sögu á Íslandi, annars vegar sem Margrét EA í eigu Samherja og hins vegar sem Beitir NK í eigu Síldarvinnslunnar. Skipið var selt til Færeyja en núverandi heimahöfn er Björgvin í Noregi.

Garðar er liðlega 70 metra langur og 13 metra breiður. Lestarpláss er 2.100 rúmmetrar.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, fór á dögunum ásamt fleirum fulltrúum fyrirtækisins til Skagen í Danmörku til að skoða Garðar þegar hann kom þangað til löndunar:

„Okkur leist strax afar vel á enda er þetta hörkuskip sem búið er að endurnýja margt í og gera mikið fyrir. Aðalvélin er til dæmis ný, afar hagkvæm í rekstri og togkraftur er mikill.

Það er búið að fara yfir kælikerfi og lestar, blökkin er ný og skipið lítur í alla staði vel út,“ er haft eftir Sindra á vsv.is þar sem er að finna fleiri myndir.

Af skipamálum Vinnslustöðvarinnar er það líka að frétta að Sighvatur Bjarnason VE hefur verið seldur úr landi.“