Fótboltamótin eru mörg á hverju sumri og mörg yfir iðkendatímabilið, foreldrum til mismikillar ánægju. Það verður því að teljast til tíðinda þegar heyrist af foreldri sem hefur fylgt börnum sínum á sama fótboltamótið í 18 ár samfleytt. Símamótið kláraðist í gær, en það fór fram um helgina í Kópavogi. Breiðablik heldur mótið, sem er stærsti fótboltamót á landinu.

Við tókum stutt spjall við Sigurhönnu Friðþórsdóttur sem er mögulega búin að setja nýtt Íslandsmet á foreldra-fótboltavaktinni.

Ég var að koma heim af 18. og síðasta Símamótinu. Ég á 3 dætur, Selmu, Helenu og Díönu. ÍBV sendir 5., 6. og 7. flokk þannig að hver stelpa fer að jafnaði 6 sinnum. Helena fór reyndar á 7 mót en á móti kemur að ég missti af einu móti hjá Díönu. Þetta var síðasta mótið mitt sem foreldri en vonandi verð ég einhvern tímann amma,“ segir hún.

En hvaða hlutverk hafa foreldrar á fótboltamótum eins og Símamótinu?
Foreldrar þátttakenda á Símamóti skipta með sér morgun-, dag-, kvöld- og næturvöktum. Það er alltaf einhver fullorðinn með hverju liði allan sólarhringinn til að fylgja þeim í mat, útbúa millimál, fara í sund, finna týnda sokka, plástra sár og nudda þreytta fætur. Svo mæta auðvitað allir foreldrar á leikina og hvetja liðin áfram.

Foreldrar eru greinilega “allt-í-öllu” þegar kemur að fótboltavaktinni. En hefur hlutverk foreldra breyst eitthvað á þessum 18 árum? 
Í dag er gerð krafa um að a.m.k. einn forráðamaður fylgi hverju barni. Áður var oft bara einn fararstjóri með öllum hópnum. Mér finnst það framför að foreldrarnir fylgi enda fátt skemmtilegra en að fara á svona mót.

Myndirðu segja að mót sem þetta sé mikilvægt fyrir unga iðkendur?
Svona mót eru ómissandi hluti af því að þroskast sem leikmaður og liðsfélagi. Það getur tekið á að búa saman í skólastofu í þrjá sólarhringa og þurfa að taka tillit til þarfa annarra, þreytt og þvæld eftir fótboltaleiki dagsins sem fara ekki alltaf að óskum og eru leiknir í alls konar veðri. Það sem upp úr stendur er samstaðan og liðsheildin, hvatning til liðsfélaga og annarra liða innan ÍBV. Í lok móts eru allir sigurvegarar, hvort sem þeir koma heim með bikar eða ekki.

Er umgjörðin hjá Breiðabliki góð í kringum Símamótið?
Aðstaða og skipulaga Símamótsins er mjög góð líkt og á öðrum stórmótum. Þar, líkt og á mótunum hér heima, byggist þetta allt á sjálfboðaliðum og foreldrum/iðkendum.
Það má hrósa Breiðabliki sérstaklega fyrir nafngiftir liða, en hvert lið heitir eftir meistaraflokks leikmanni í kvennaliði viðkomandi félags. Liðið hennar Díönu hét t.d. Kristín Erna.

Að lokum, mikilvægasta spurning til Vestmannaeyinga í júlí: Ætlarðu að vera á Þjóðhátíð og hvernig finnst þér Þjóðhátíðarlagið í ár?
Ég verð á Þjóðhátíð með fjölskyldu og vinum og e.t.v. einhverjum gestum. Mér finnst þjóðhátíðarlagið æðislegt og hlakka mikið til.

Sigurhanna með dætrum sínum, þeirri elstu og yngstu. F.v Selma, Díana & Sigurhanna.
Díana með liðsfélögum sínum á Símamótinu.